<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Meira um Florida

Ég eyddi síðustu færslu í að nöldra yfir flugsamgöngum í fríiinu. Nú er best að segja eitthvað uppbyggilegt um fríið sjálft.

Ég hefði aldrei trúað að það væri svona ljúft að fara á hlýrri stað á þessum árstíma, en nú er ég kominn á þá skoðun að það sé algjör snilld að gera slíkt annaðhvort að vori eða hausti. Þetta er í raun fín framlenging á sumrinu.

Við hefðum að vísu getað verið heppin með veðrið en þó voru fyrstu þrír dagarnir fínir og síðustu tveir, auk eins einhvers staðar inni á milli. Það rigndi nokkuð oft, en samt ekki það oft að það hefði einhver slæm áhrif á mann, og það var yfirleitt gola sem varð til þess að það var ekki of heitt. Oftast var hitinn í kringum 25 stig, sem var hið besta mál.

Ég átti ekki von á því að maður yrði svona afslappaður þarna. Maður var búinn að sjá fyrir sér að þurfa að vera með Líf hálfpartinn í bandi allan tímann og sleppa henni helst aldrei úr augsýn, en það reyndist ástæðulaust, í það minnsta þegar maður var ekki í einhverjum görðum þar sem allt var troðfullt af fólki. Það var fín upphituð sundlaug á hótelinu sem var notuð óspart, sérstaklega af Líf, og það var lítið mál að leyfa henni að sprikla einni í lauginni á meðan við sátum í sólinni á sundlaugarbakkanum. Það var allt yfirbragð líka mjög afslappað og það kom mér þægilega á óvart.

Eini ókosturinn við þennan tíma var að við vorum greinilega ekki þau einu sem voru í fríi. Það var nefnilega Spring Break í skólunum, og það sást m.a. þegar við fórum í Disneyland, en þar var bókstaflega teppalagt af fólki. Þar varð maður reyndar vitni af ótrúlegu peningaplokki. Krökkum stóð nefnilega til boða að kaupa bók fyrir eiginhandaráritanir Mikka mús, Öskubusku, Andrési önd og öllum þessum hetjum, og var kannski að bíða tímunum saman í biðröðum eftir því að hitta þessar stjörnur og fá áritunina! Ég varð feginn að Líf var ekki spennt fyrir að bíða svona lengi, enda var hún hæstánægð skömmu seinna þegar skrúðganga gekk um garðinn með öllum þessum hetjum og hún náði m.a. að heilsa Plútó og Mikka mús. Toppurinn!! Svo sáum við líka sýningu þar sem verið var að krýna Öskubusku sem prinsessu, og það var ekki síðra!

Seaworld var líka skemmtilegt þar sem hægt var að sjá alls kyns sædýr. Við sáum tvær sýningar, aðra með sæljóni og hina þar sem menn gerðu ýmsar kúnstir með háhyrningum.

Þetta er annars staður sem ég get fyllilega mælt með sem stað til að fara í frí með fjölskylduna...þetta kom þægilega á óvart.

****

Það er óhætt að segja að brauðstritið sé byrjað eftir fríið. Í gær snerist dagurinn um ársreikninga Hafnarfjarðarbæjar og eru menn afar ánægðir, enda er skilað 1.200 milljóna króna rekstrarafgangi. Hins vegar hafa Sjálfstæðismenn bent á að þetta sé brothættur ársreikningur, þar sem mikið af hagnaðinum sé til kominn vegna gengishagnaðar.

Ég ætla nú ekki að tjá mig um þessi rök, en það er samt merkilegt að það virðist vera alveg sama í hvaða sveitarfélagi menn eru, alltaf sjá menn ársreikning mismunandi augum eftir því hvort menn eru í meirihluta eða minnihluta. Og meira að segja getur sýnin verið ólík - meirihlutinn segir að reikningurinn beri vott um trausta fjármálastjórnun og að aðgerðir hafi skilað árangri á meðan minnihlutinn segir reikninginn sýna það skýrt að allt sé í kalda koli í fjármálastjórnuninni. Það getur líka verið erfitt fyrir blaðamenn sem eru að fjalla um þetta að gefa raunsanna mynd af reikningnum án þess að vera eitthvað bókhaldsmenntaðir, og þessi málflutningur hjálpar yfirleitt ekki til.

Spurning hvernig þetta gengur núna, eða hvort ég fái aðra fylkinguna yfir mig eftir umfjöllunina.

***

Þessi hamagangur varð til þess að ég missti af leik Liverpool og Juventus (helv. vinnan!! :)). En þarna var góður sigur. Auðvitað slæmt að fá á sig mark á heimavelli, en ég held að við getum alveg skorað á móti þeim í Tórínó, sem þýðir auðvitað að þetta mark mun þá ekki skipta máli.

Ég er bara nokkuð bjartsýnn fyrir seinni leikinn - og sem betur fer er sá leikur á miðvikudegi þannig að ég mun geta horft á hann!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?