<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júlí 25, 2005

Liverpool og fleira

Bloggið hefur aðeins fallið niður upp á síðkastið, en það á sér ýmsar skýringar, sem ekki verður farið nánar út í hér.

Ég er nýkominn frá Liverpool þar sem ég fór ásamt Jóni Óla félaga mínum í stjórninni í ferð á vegum klúbbsins til að hitta fólk þar. Fundað var með miðasölunni og alþjóðaklúbbnum og svo kíkt aðeins á Melwood, en enginn var þar við æfingar þar sem liðið var í æfingabúðum í Sviss. Sá þar m.a. leik Liverpool og Total Network Solutions sem leikinn var í Wrexham. Við Jón Óli flugum út á þriðjudaginn, tókum þar bíl á leigu og keyrðum til Wrexham, og keyrðum svo þaðan til Liverpool eftir leikinn. Reyndar var það Jón Óli sem keyrði og ég las mig í gegnum leiðbeiningar á leiðinni svo að hann færi inn og út á réttum stöðum. Þetta gekk bara merkilega vel og við vorum komnir til Liverpool fyrir miðnætti.

Ferðin gekk svo vel, við komumst á þá staði sem við ætluðum okkur og versluðum smá í leiðinni. Í gær, laugardag, tókum við svo lestina til London og fengum okkur smá göngutúr frá Euston niður á Oxford Street. Fyrir utan það að það heyrðist mjög reglulega í lögreglubílum með sírenur gat ég ekki séð það á fólki að það væri eitthvað hrætt vegna þess sem þar hefur verið í gangi. Það var í raun bara gaman að rölta þarna um, en ég hef í raun aldrei verið í London öðruvísi en að keyra þar í gegn og millilenda.

Kannski segi ég eitthvað betur frá einstökum atvikum ferðarinnar í öðrum færslum.

***

Sá leik KR og Keflavíkur í kvöld og horfði upp á enn eitt tapið. En þrátt fyrir mjög daprann seinni hálfleik sem varð KR að falli var það ekki liðið sem fór mest í taugarnar á mér.

Fyrir aftan okkur Jóa á vellinum sátu nefnilega nokkrir náungar sem voru síröflandi allan leikinn, meira að segja á meðan KR var yfir. Ekkert nema kvart og kvein, og undir lokinn var meira að segja farið að kalla boltastrákana algjör aumingja.

Nú er ég ekki að segja að menn megi ekki kvarta yfir dapri frammistöðu KR. Það er auðvitað eitthvað sem á að gera. Ég hef t.d. ekkert á móti því að menn skammi leikmenn fyrir slæma sendingu, illa nýtt færi og varnarmistök. En þegar menn mega varla koma við boltann án þess að það sé drullað yfir menn og þegar farið er að kalla bæði leikmenn, þjálfara og stjórnarmenn öllum illum nöfnum þá er eitthvað að. Slíkt hefur ekkert með stuðning á liði að gera heldur er bara niðurrifsstarfsemi. Mér hefur hins vegar fundist menn hafa ansi mikla tilhneigingu til þess að fara niður á svona lágt plan þegar illa gengur, og það gildir ekki bara um KR heldur á mörgum öðrum stöðum.

Þó að menn séu pirraðir yfir slæmu gengi og vondri frammistöðu þá eiga menn að halda áfram stuðningi í stað þess að vera að einhverju endalausu tuði. Slíkt hefur nefnilega ekkert upp á sig.

***

Er að horfa á Chelsea-AC Milan. Chelsea yfir sem stendur. Leikurinn ber þó mikinn keim af undirbúningstímabili. Spennan er verulega að magnast fyrir ensku deildina og ég er gríðarlega spenntur fyrir því sem Benitez hefur verið að gera. Ég held að raunhæft sé að stefna á eitt af þremur efstu sætunum í vor. Sjáum til hversu raunhæft það verður.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?