<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 11, 2003

Suðurnes

Mér er farið að leiðast á Suðurnesjum. Einn kollegi minn hér býr í Hafnarfirði og keyrir alltaf á milli á hverjum degi. Skil ekki hvernig hann fer að því. Ég væri orðinn brjálaður á því.

En eftir daginn í dag eru þetta tveir dagar í viðbót og svo er ég kominn í frí. Palli Ketils hefur að vísu nefnt það við mig að hann vildi nota mig á Suðurnesjunum þegar ég kæmi úr sumarbústaðnum en ég ætla að reyna að koma mér undan því. Nenni ekki að keyra hingað oftar en ég nauðsynlega þarf.

Stelpan farin

Í dag munu tendapabbi (Svarar) og konan hans (Ingibjörg) taka stelpuna með sér í sumarbústað í Borgarfirðinum og líklega verður hún þar fram á þriðjudag. Við ætlum að koma í heimsókn á sunnudag og líklega mun Rósa vera þar svo fram á þriðjudag en ég get ekkert gist vegna vinnunnar. Bömmer. En það ber hins vegar að hlakka til þess að Stella og Siggi, nágrannar mínir, ætla að halda brjálaða garðveislu í kvöld til að vígja garðinn, sem hefur verið tekinn rækilega í gegn hjá þeim. Vildi að maður hefði yfir sömu framtakssemi að ráða og þau. En þannig er það víst ekki.

Húsið

Það kom fólk að skoða húsið okkar í gær, sem hafði komið áður fyrir um mánuði síðan. Hugsanlegt að eitthvað tilboð komi út úr því þó að maður sé ekki að gera sér neinar sérstakar vonir um það. Maður gerði í raun ekki ráð fyrir því að neitt gerðist í þessum málum fyrr en í haust og það er bara algjör bónus ef eitthvað gerist fyrr. Maður bara vonar það besta.

Kewell, framhald

Maður er rétt að ná sér niður eftir komu Harry Kewell til Liverpool. Það stórkostlega er hins vegar að fylgjast með United-mönnunum og Arsenal-mönnunum á spjallborðinu á liverpool.is sem segjast núna aldrei hafa haft áhuga á honum hvort sem er. En Harry er bara Púllari og vildi leika með Liverpool þó að hann hefði fengið tilboð um hærri laun annars staðar. Og þetta segir mér það að hann muni leika með hjartanu og það skiptir gríðarlega máli. Það er allavega alveg ljóst að eitt af mínum fyrstu verkum þegar ég kem til Liverpool í ágúst er að kaupa treyju númer sjö með nafni Kewell á.

0 comments

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Frí í hyllingum

Nú notar maður vinnuna til að blogga aðeins, þar sem ég er stopp í þeim verkefnum sem eru í gangi, en er með mikið af meldingum í gangi. Spurning samt hvort ég kanni á eftir sigurgöngu 9. flokks kvenna í körfubolta hjá Keflavík. Verð að viðurkenna að ef þetta væru Haukar væri ég spenntari.
Ég er annars farinn að sjá fríið mitt, þó að það verði styttra en í fyrra, í hyllingum. Rósa sótti í gær lykilinn að bústaðnum sem við verðum í í viku og það verður þvílíkt ljúft að komast í bústað með potti...ætli ég eigi ekki eftir að halda mig þar stóran part af dvölinni...verð sennilega orðinn vel soðinn eftir vikuna.

Harry Kewell

Stórkoslegt...Harry Kewell er kominn til Liverpool. Þetta gæti verið lykilkaupin að frekari velgengni á næsta tímabili. Nú er búið að leysa tvö stór vandamál sem háðu okkur á síðasta tímabili; hvað lítið kom sóknarlega úr hægri bakvarðarstöðunni og hvað vinstri kanturinn var veikur. Liðið verður ekki árennilegt í vetur.

Sagan segir að Kewell verðir nr. 7. Það gæti verið liður í því að Smicer sé á leið burt. Kannski helgast það af því að ég hitti Smicer þegar ég fór mína fyrstu og einu ferð á Melwood og sá hversu frábær náungi hann er, en ég myndi sjá mikið á eftir honum. En kannski verður að sætta sig við það að hann hefur ekki líkamlegan styrk til að takast á við ensku deildina. En hann er líka búinn að vera mjög óheppinn með meiðsli og virðist einhverra hluta vegna alltaf meiðast þegar hann er að ná sér á strik. Ég vona að hann verði áfram...finnst að hann eigi enn eitthvað að bjóða.


0 comments

sunnudagur, júlí 06, 2003

Tívolí, tívolí, tívolí-lí-lí

Ég er opinberlega búinn að komast að því að dóttir mín er algjör adrenalínfíkill. Þetta fékk ég staðfest þegar við fjölskyldan fórum í tívolíið sem nú er fyrir utan Smáralindina. Hún (þ.e. dóttir mín) verður fimm ára í haust en er þegar farin að sækja í tæki sem ég hefði ekki þorað í fyrr en í fyrsta lagi við 10 ára aldur. Hún vildi semsagt endilega fara í hálfgerðan kolkrabba sem snerist á þokkalegum hraða og eftir hálfgerðan fjölskyldufund var ákveðið að ég skyldi fara með henni í tækið. Eftir ferðina mátti ég vart mæla þar sem ég var hálf ringlaður af öllum þessum snúningi á meðan dóttirin hrópaði hástöfum að mömmu sinni að þetta hefði verið rosalega gaman. Hún verður sennilega tilbúin til að fara í einhverjar þeytivindur á næsta ári.

Á leið til Liverpool

Það var ákveðið á stjórnarfundi hjá Liverpool-klúbbnum að ég yrði annar tveggja til að fara í svokallaða pre-season ferð sem er árviss viðburður til að funda með forsvarsmönnum LFC úti og afla efnis í blaðið. Við munum að öllum líkindum fara í byrjun ágúst og ég er að stefna að því að taka Rósu með mér þar sem lengi hefur staðið til að hún komi með mér á Anfield. Á meðan við verðum þarna úti mun Liverpool spila æfingaleik við Valencia sem spillir ekki fyrir.

Upplifunin fyrir mig verður fyrst og fremst að taka viðtöl við leikmenn eða starfslið hjá klúbbnum, þ.e. ef einhver nennir að tala við mig! En þá verður maður bara í því að safna eiginhandaráritunum! Allavega verður þetta gríðarlega spennandi og trúlega margir stuðningsmenn sem hefðu ekkert á móti því að vera í mínum sporum. En þetta er auðvitað vinna, en mjög ánægjuleg vinna!

Sumarfrí - eða þannig

Nú er VF komið í sumarfrí en ég á ekki inni nógu mikið sumarfrí til að fara í frí strax. Því er ég farinn að vinna í Keflavík þar sem verið er að vinna að nýju Tímariti Víkurfrétta. Töluvert rólegri vinna en ég er vanur, eiginlega svo róleg að mér leið nánast illa á fyrsta deginum mínum á föstudaginn. En þarna verð ég allavega í viku í viðbót og fæ svo í það minnst aeina og hálfa viku í frí...það verður ljúft. Ég sé þessa einu viku sem við verðum í sumarbústaðnum í Brekku í hyllingum...gjörsamlega.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?