<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 01, 2003

Brjálaði púllarinn stendur undir nafni!!
Fyrst af öllu, gleðilegt ár!!
Þvínæst: Ég hefði viljað fá betri byrjun á árinu 2003. Horfi á arfaslakt Liverpool-lið bíða lægri hlut fyrir Newcastle. Ég veit ekki hvað í ósköpunum er í gangi hjá þessu liði. Mér finnst tveggja mánaða lægð einum of löng en ég veit ekki hvað veldur henni. Hefur óheppni síðustu leikja (m.a. leikaaskapurinn í Francis Jeffers) þau áhrif að liðið er gjörsamlega sneitt öllu sjálfstrausti? Ég hélt að sigurinn á móti Aston Villa í deildarbikarnum myndi koma þeim á sporið, og hann hefði sennilega gert það ef annaðhvort leikurinn gegn Blackburn eða Arsenal hefðu unnist. Maður er enn á því að liðið þurfi örlitla heppni til að komast á sigurbraut að nýju, en grunnatriðið er þó að það nái að spila betur en þetta. Liðið virðist vera í einhverjum vítahring sem það á erfitt með að losa sig úr.
Að öðru leyti er það af mér að frétta að ég ræddi við Pál Ketilsson hjá Víkurfréttum á mánudag um frekari vinnu hjá þeim og hann ætlaði að gefa mér svar daginn eftir. Hugsanlega hefur hann ekki fattað að dagurinn á eftir var gamlársdagur en það verður allavega spennandi að sjá hvort ég fái eitthvað meira að gera þarna. Ég væri í það minnsta mjög spenntur fyrir því.
Gamlársdagurinn leið með hefðbundnum hætti. Við fórum í mat til tengdamömmu á gamlárskvöld, fórum síðan á brennu að Ásvöllum (sem ég held að hafi aldrei verið fjölmennari en núna) og enduðum síðan aftur heima hjá tengdamömmu þar sem við horfðum á skaupið (sem var helv. gott!!) og skutum upp rakettunni og tertunni sem við keyptum. Svo löbbuðum við heim, tókum á móti nágrönnum okkar í smátíma og fórum að sofa eitthvað um hálf fimm. Ljúft og í rólegri kantinum, enda varla annað hægt þegar maður er með fjögurra ára barn.
Í dag fór ég svo til Bessastaða með móður minni, Sigrúnu Klöru Hannesdóttur, sem var að veita fálkaorðunni viðtöku. Mér finnst það frábært að hún hafi fengið þessa viðurkenningu á gríðarlegu starfi sem hún hefur unnið og hún á það svo innilega skilið, jafnvel þó að mér finnist þessi vettvangur afskaplega lítið spennandi sjálfum. Eftir afhendinguna fóru svo Bessastaðir smátt og smátt að fyllast af þingmönnum, sendiherrum og embættismönnum og fuglabjargið var orðið þvílíkt að hávaðinn var nánast kominn upp fyrir sársaukamörk. En þegar við vorum að yfirgefa samkvæmið mætti ég gamla yfirmanni mínum á DV, Össuri Skarphéðinssyni, og það var gaman að taka í spaðann á honum eftir að hafa ekki hitt hann nokkuð lengi. Mér fannst gott hvernig hann náði að æsa Davíð Oddsson upp í kryddsíldinni í gær...greinilegt að það er kominn töluverður skjálfti í hann.
Nú bíður maður aðeins eftir því hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?