<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 22, 2004

Ausið úr skálum reiðinnar

Nú er komið kennaraverkfall. Ég hef upplifað tvö slík sem nemandi og þau hafa almennt ekki komið mér illa, í það minnsta hefur mér gengið ágætlega að ná upp því sem ég þyrfti að ná þó að í seinna verkfallinu, sem var vorið 1989, hafi einhver próf fallið niður. En nú er upplifun þessa verkfalls sterkari hjá mér. Bæði sé ég málið með út frá sjónarhóli kennarans þar sem Rósa er kennari og þá er ég líka að upplifa verkfallið sem foreldri þar sem dóttir mín er nýbyrjuð í skóla.

Ég verð alveg gáttaður á því hvað skilningsleysi fyrir mikilvægi kennarans virðist mikið meðal launanefndar sveitarfélaga. Þeir leggja fram sama tilboð og í maí, hafna skammtímatilboði frá kennurum og meira að segja frétti ég það að viðhorf eins launanefndarmanns væri þannig að þeir ætluðu ekkert að semja við kennara. Þeir ætluðu bara að þvinga kennara í langt verkfall þangað til þeir gæfust upp og fá þá svo til að hirða það sem þeim væri boðið.

Miðað við það hvernig launanefndin hefur starfað kemur þetta viðhorf mér ekkert á óvart. Það virðist líka vera að sveitarfélögunum sé skítsama þó að kennarar séu í verkfalli - þeir græða bara á því þar sem þeir þurfa ekki að borga kennurum laun á meðan. Virðingin fyrir því sem kennarar eru að gera er engin og framkoman er í samræmi við það. Þetta kemur svo niður á skólagöngu barnsins míns, sem er nýbyrjað í skóla og þyrfti á smá reglu að halda til að koma sér af stað, og einnig niður á skólagöngu margra annarra barna sem eru mörg hver mun verr sett en ég. Það er mjög slæmt að þessum börnum sé kippt út úr skólanum eftir mánaðarskólagöngu af því að sveitarfélögunum er skítsama um kennarana.

Pólitíkusarnir eru alltaf eins. Mig langaði til að henda einhverju í sjónvarpið þegar Gunnar Birgisson þingmaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi fullyrti að laun kennara væru "alls ekki slæm." Heyrðu nú, Gunnar, finnst þér það semsagt ekki slæmt að 31 árs kennari með þriggja ára starfsreynslu og þriggja ára háskólanám sé að fá 180 þúsund krónur í grunnlaun á mánuði? Myndir þú sætta þig við það að börnin þín fengju þessa upphæð þegar þau væru útskrifuð úr háskóla? Ég get ekki ímyndað mér það.

En auðvitað eru það ekki bara sveitarfélögin (eða fulltrúar þeirra) sem láta svona heldur er ríkið ef eitthvað er ennþá forpokaðra. Þeir sveltu grunnskólana áður en þeir voru fluttir til sveitarfélaganna og vilja svo ekki setja meiri peninga í þetta. Það setur auðvitað sveitarfélög í vanda, en það þarf ekki að leiða það af sér að koma fram af jafn miklu virðingarleysi og þau gera.

Kennarar eru mikilvæg starfsstétt, það er nauðsynlegt að hæft fólk fáist í þetta starf og launin verða hreinlega að vera í samræmi við það. Eina vonin sem ég sé úr þessum ógöngum er að ríkið komi inn með meira fjármagn og vonandi berst Þorgerður Katrín menntamálaráðherra fyrir því. Það er smá von sem er fólgin í því að hún er sjálf foreldri og er að lenda sjálf í verkfallinu. Hún ætti því að skilja vandann betur en margir útbrunnir pólitíkusar.

Jæja, þá er ég búinn að fá útrás fyrir þetta!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?