<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, desember 28, 2002

Síðasta boðið!!
Ahh...þvílík lukka. Síðasta jólaboðið afstaðið. Afkomendur ömmu og afa (móður megin) hittast alltaf milli jóla og nýárs og það boð var semsagt í kvöld. Meira át og meiri dans í kringum jólatréð (í þetta sinn var ég undirspilari þannig að ég dansaði ekki mikið!!) og svo situr maður núna og kýlir vömbina. Er reyndar að fara í afmælispartý á eftir sem enginn virðist vera í stuði til að fara í. Það verður eitthvað athyglisvert!!
Ég tók annars viðtal í dag við sendifulltrúa Rauða krossins í Eþíópíu. Þetta er gert að beiðni Rauða krossins sem vildi fá þessa hlið mála í fræðsluritið. Þar með vona ég að það fari að vera klappað og klárt. Ég er líka aðeins byrjaður að skrifa um Íslenska söfnunarkassa, en saga þess fyrirtækis er skemmtileg. Það er greinilegt að sú afstaða að þessir söfnunarkassar ýti undir spilafíkn er ekki ný af nálinni. Slík afstaða finnst mér alltaf hálf fyndin...það er aldrei talað um að eitthvað sé að fólkinu heldur er þetta allt tækjunum að kenna. Afar undarleg afstaða, sérstaklega þar sem ég efast um að þessir sömu menn hafi þá afstöðu að það eigi að banna neyslu á fitandi mat af því að hann getur orsakað offitu. Samt er þetta nákvæmlega samskonar hlutur. Alveg ótrúlegt!!!
Í gærkvöldi heimsótti ég svo Jón Heiðar félaga minn og Jói var þar einnig. Við drukkum bæði viskí og bjór í góðu yfirlæti til klukkan rúmlega hálf tvö og dóttir Jóns Heiðars, sem er tveggja ára, tók líka sinn þátt í gleðskapnum með klukkutíma söngatriði úr rúminu sínu. Afar skemmtilegt!!
Nú er maður svo farinn að setja sig í stellingar fyrir stórleikinn gegn Arsenal á morgun. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik og held að nú muni Liverpool snúa við blaðinu. Ef ekki, þá getur liðið endanlega kysst allar meistaratitilsvonir bless og farið að einbeita sér að bikarkeppnunum og UEFA-keppninni.

0 comments

fimmtudagur, desember 26, 2002

Týpísk jól
Annar dagur jóla upprunninn og ég er búinn að upplifa mjög dæmigerð jól. Þorláksmessa með síðustu þrifunum, pakkaútdeilingum, kirkjugarðsferð og skötu um kvöldið. Og síðan rann aðfangadagur upp sem byrjaði á annarri kirkjugarðsferð (þessi í Hafnarfirði). Mamma og María frænka mín voru í mat hjá okkur um kvöldið og síðan komu tengdaforeldrar mínir, Jenný og Hjalti, í heimsókn. Fín kvöldstund. Margt og mikið fengum við skemmtilegt í jólagjöf en ein gjöf hefur verið mest notuð hingað til. Það er spurningaspilið Ísland, sem er einskonar sambland af Trivial Pursuit og Matador. Maður svarar spurningum og þarf að gera eitthvað eftir því hvort maður svarar rétt eða rangt. Ýmisst borgar maður eitthvað eða græðir eitthvað eða að maður verður að syngja eða gera einhverjar leikfimiæfingar. Þetta er prýðilega skemmtilegt spil, og það skemmtilegasta er að gæfuhjólin geta snúist á örskotsstundu. Við Rósa höfum spilað þetta spil síðustu tvö kvöld og skemmt okkur konungslega en það virðist þó hafa verið smá fljótfærni í allri vinnu því það er töluvert mikið um stafsetningar- og prentvillur sem hefði verið hægt að forðast með góðum prófarkalestri. Svo varð ég dálítið svekktur þegar haldið var fram í einni spurningunni að Vilhjálmur Einarsson hefði hlotið önnur verðlaun í þrístökki á Ólympíuleikum árið 1960!! En spilið er annars skemmtilegt.
Í dag fer ég sennilega í jólaboð hjá stórfjölskyldu Jennýjar, mömmu hennar Rósu. Leikur Liverpool og Blackburn verður hvergi sýndur þannig að það hefur lítið upp á sig að vera að horfa á sjónvarpið einhvers staðar. Í kvöld er svo boð hjá Svavari pabba hennar Rósu. Og þar verður framangreint spil að sjálfsögðu með í för!!

0 comments

mánudagur, desember 23, 2002

Jólin, jólin!!
Já, ég er búinn að vera í jólaskapi en nú hefur það endanlega sprungið út hjá mér. Líf er búin að skreyta jólatré hjá þremur ömmum í dag, Jói (sjá link til hliðar) var að koma til landsins og við horfðum saman á Liverpool-Everton í dag. Á morgun borðar maður svo skötu og þrífur gólfin heima.
En hvað er ég annars búinn að gera upp á síðkastið? Já, fimmtudagurinn fór í meiri vinnu, ég sendi uppkast af fræðsluritinu og fékk athugasemdir til baka sem ég er að vinna eftir. Veit ekki hvað ég geri mikið í því yfir hátíðarnar...manni langar til að liggja eitthvað í leti.
Við Rósa versluðum svo big time fyrir jólin á föstudagsmorguninn, sem er ekki í frásögur færandi nema að þegar við vorum búin að versla í Bónus í Smáranum ákváðum við að fara á McDonalds til að fá okkur að borða. Og ég verð að segja að ég veit ekki hvað í andsk... þessir íslensku rekstraraðilar halda að þeir séu! Big Mac Stjörnumáltíð á 749 krónur!!! Og það fyrir borgara sem nánast hverfur ofan í bakann sem hann kemur í. Það verður langt þangað til ég beini viðskiptum mínum aftur langað því þetta er algjört rán. Mætti ég þá heldur borgar 100 kalli meira og fá almennilegan borgara á American Style! Þar veit maður þó að maður er að borga meira fyrir alvöru gæði!
Laugardagurinn fór svo í meiri tiltekt auk þess sem þurfti að sinna nokkrum skynsömum einstaklingum sem vilja gefa félagsaðild að Liverpool-klúbbnum í jólagjöf. Þetta er orðið mjög vinsælt og þetta þyrfti að kynna betur. Um kvöldið fórum við Rósa síðan til Beglindar frænku minnar en hún er flutt í nýja íbúð í Árbænum. Þangað komu líka fleiri frænkur; Gunnhildur, Elín og Kolbrún, ásamt Siggu kærustunni hennar Elínar. Berglind bauð okkur semsagt í heitt kakó en við komum með bjór þar sem okkur þótti ósennilegt að verið væri að bjóða eingöngu upp á kakó á laugardagskvöldið. Það reyndist hins vegar vera eini tilgangurinn með boðinu en þó drukkur flestir bjórinn okkar af bestu lyst og kvöldið varð hið skemmtilegasta.
Í dag, sunnudag, var byrjað á fótbota á Seltjarnarnesinu sen verður einna helst minnst fyrir skrautlegt sjálfsmark Sveins H. Guðmarssonar í tíma sem var reyndar í heild frekar skrautlegur. Bíð ég spenntur eftir lýsingu Sveins á tímanum í blogginu sínu. Síðan hitti ég Jóa í Ölveri og við horfðum á Liverpool gera markalaust jafntefli í grannaslagnum gegn Everton. Það var auðvitað mikil barátta og læti en ekki mikið um áferðafallega knattspyrnu og í raun má segja að úrslitin hafi verið sanngjörn. Er samt enn að bíða eftir að sjá Liverpool vinna sig almennilega úr lægðinni með sannfærandi sigri. Vonandi kemur hann á annan í jólum gegn Blackburn.
En nú nálgast jólimn og hlakka ég mikið til þegar hangikjötslyktin fer að ilma um húsið á morgun...og ekki síður þegar annar matur verður snæddur yfir hátíðarnar.

Gleðileg jól!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?