<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Tónlistarleg uppgötvun - Haukur Morthens

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi íslenskrar tónlistar. Einhvern daginn þegar var að ramba um í tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar rakst í á endurútgáfa á geisladiski af plötu sem Haukur Morthens hafði gert með Mezzoforte 1981 að mig minnir og söng hann þar mörg frábær lög, sem flest voru eftir Jóhann Helgason. Platan heitir því skemmtilega nafni Lítið brölt. Ég tók þennan disk að láni og endaði á því að skrifa hann á tóman disk til að ég gæti notið hans seinna. Síðan eru liðin örfá ár og diskurinn hafði ekki ratað í spilarann hjá mér eftir það.

Undanfarna mánuði hef ég hins vegar verið í því eilífðarverkefni að fara í gegnum geisladiskasafnið á heimilinu og setja áheyrileg lög inn í fartölvuna mína, til að ég geti svo spilað það mér til dægrastyttingar meðan ég er að gera eitthvað annað í tölvunni. Ég var þarna búinn að fara í gegnum allt poppið og rokkið sem til var fyrir utan skrifuðu diskana. Og þá dúkkaði þessi diskur upp.

Ég henti disknum í tölvuna og lét hann rúlla í gegn. Og þvílík snilld. Þarna var flottur söngvari, flottir tónlistarmenn og flott lög, og mér fannst útkoman vera ótrúleg. Ég var í raun alveg rasandi hvað þetta er flottur diskur, með hverri perlunni á fætur annarri.

Flottasta lagið á þessum disk finnst mér vera lag Jóhanns við sálminn Við freistingum gæt þín. Að geta samið lag sem gæðir í raun ósköp venjulegan 200 ára gamlan sálm þessu lífi er mikill og stór hæfileiki. Fyrir utan það að laglínan er í sjálfu sér bæði einföld og áheyrileg passar hún svo vel við ljóðlínurnar og ýtir í raun og veru á glæsilegan hátt undir merkingu hans. Þá finnst mér innkoma saxafónsins í laginu vera punkturinn yfir i-ið í þessu lagi, kannski af því að ég lærði svo lengi á saxafón á sínum tíma, og þá m.a. undirhandleiðslu saxafónleikarans í þessu lagi, Kristins Svavarssonar.

Þó að menn séu kannski að átta sig betur á því í seinni tíð held ég einhvern veginn að Jóhann Helgason fái aldrei þá viðurkenningu sem hann á skilið yfir því hversu frábær lagasmiður hann er. Í mínum huga er hann ekkert síðri en t.d. Gunnar Þórðarson og Magnús Eiríksson.

2 comments

mánudagur, ágúst 08, 2005

Gay pride

Við fjölskyldan skelltum okkur á Gay Pride á laugardaginn ásamt á bilinu 30-50 þúsund manns (fer eftir því hver segir frá). Mér finnst eins og fleirum alveg frábært að barátta samkynhneigðra hafi borið þennan árangur - það þarf heldur betur sterkan karakter til að koma slíku til leiðar. Líf fannst mjög gaman að skrúðgöngunni enda margt litríkt og skemmtilegt þar að finna. Felix og Baldur Þórhalls voru að mínu mati bestir með hommahnjúkana...algjör snilld.

Skemmtunin eftir á vakti mig hins vegar dálítið til umhugsunar (sá hana reyndar ekki alla þar sem við höfðum gefist upp á rokinu og fórum heim þegar tvær norskar konur voru nýbyrjaðar á sínu atriði, og virtust slá í gegn miðað við viðbrögð áhorfenda). Sum skemmtiatriðin voru nefnilega algjörlega glötuð (sá að vísu ekki fyrsta atriðið almennilega þar sem við vorum að koma okkur fyrir). Söngur Ylfu Lindar og stráksins sem var með henni var hræðilegur og það var eins og þau vissu ekkert hvað þau ættu að gera á sviðinu. Svo kom einhver þýskur tónlistarmaður með einhverja dúnk-dúnk tónlist sem var hreint út sagt hörmuleg. Hanna María og Ingrid voru reyndar allt í lagi, sem og stelpan með gítarinn sem ég man ekkert hvað heitir, og Þórunn Lárusdóttir náttúrulega frábær með Kabarett-atriðið.

Það sem vakti mér kannski mest til umhugsunar var atriðið frá Kiddu rokk og félögum. Lagið sem þar var sungið virtist að mestu snúast um kynlíf og hvað einhverri langaði mikið að sofa hjá einhverri annarri. Ég var eiginlega dauðfeginn að Líf var ekki að hlusta mikið á textann. Þetta eru kannski fordómar í mér, en mér hefur nefnilega stundum fundist margir samkynhneigðir vera yfir sig uppteknir af kynlífi. Þeir eru vissulega ekki einir um það, en mér finnst það oft ansi áberandi hjá samkynhneigðum.

Ég er einhvern veginn þeirrar skoðunar að það væri best að haga skemmtiatriðunum á þessari samkomu þannig að eingöngu samkynhneigt fólk sjái um skemmtiatriðin og komi fram. Með því móti væri verið að senda skýr skilaboð út í samfélagið þess efnis að samkynhneigt fólk er bara venjulegt fólk eins og ég og þú, og ef það er hægt að koma fólki í skilning um það mun samstaðan með samkynhneigðum aukast enn frekar, þó að hún sé vissulega til staðar í dag.

En vonandi eru orð Árna Magnússonar á samkomunni ekki aðeins innantóm...það verður í það minnsta gaman að sjá hverjar efndirnar verða. Ef honum tekst að koma þessu í gegn þá er eitthvað í hann spunnið.

1 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?