<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 15, 2005

Blöðin búin

Það er ferlegt að þurfa að klára tvö blöð í einu. Ég lenti í því núna að klára 24 síðna Víkurfréttablað og 40 síðna Liverpool-blað á sama tíma. Það er ekkert sérstaklega sniðugt. En það verður að viðurkennast að skipulagið í Liverpool-blaðinu var ekki mjög mikið hjá mér og nánast allt unnið á síðustu stundu. Það er ekkert sérstaklega sniðugt heldur.

***

Þeir eru ótrúlegir á DV. Nú undanfarið hafa þeir verið ósparir á að taka fréttir sem ég hef birt á vikurfrettir.is og birta þær nánast orðrétt hjá sér án þess að geta heimilda (ok, stundum hafa þeir reyndar gert það, en sjaldnar en hitt). Þetta eru reyndar engar stórfréttir á landsvísu, og í sumum tilvikum er þetta meira að segja réttlætanlegt.

Í dag birtu þeir t.d. frétt um að ungmennaráð Hafnarfjarðar hefði fengið áheyrnarfulltrúa í íþrótta- og tómstundanefnd. Þá frétt setti ég inn kl. rúmlega hálf sex í gær. Þetta er hins vegar eitthvað sem kemur hvort eð er fram í fundargerð bæjarstjórnar og því ekki um neitt skúbb að ræða. Það er því í sjálfu sér réttlætanlegt að vitna ekki í miðilinn í slíkri frétt.

Verra fannst mér hins vegar með fréttina í gær, en hún var um að fyrrverandi aðstoðarsparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar væri farinn að vinna hjá Landsbankanum. Þetta er klárlega skúbb frá mér, fréttin var tekin nokkuð orðrétt úr minni frétt þó að orðalagi væri eitthvað hnikað til og í þokkabót stálu þeir myndinni af manninum sem ég birti með fréttinni á vefnum, og birtu hana í blaðinu!

Nú væri fróðlegt að vita hvað Jónas Kristjánsson segir um svona kranablaðamennsku, því að þessi vinnubrögð eru ekkert annað í báðum þessum tilvikum.

3 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?