<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, apríl 29, 2006

DV

Jæja, þá er DV hætt að verða dagblað. Það er ákveðinn söknuður af því, en hins vegar finnst mér það líka gott að öðru leyti.

Það er mikil synd hvernig búið er að fara með þetta blað síðustu árin sem hafði alla burði til að verða þetta ágenga blað sem segir fréttir sem aðrir veigra sér við að segja. Þegar ég var á mínu seinna skeiði á DV, árin 2001-2002, fannst mér allt umhverfi benda til þess að hægt væri að gera frábæra hluti þarna. Sigmundur Ernir Rúnarsson var nýbyrjaður sem ritstjóri og það var alveg ljóst að þar var fagmaður á ferðinni. Ég var reyndar þá í íþróttunum og kom ekkert nálægt öðrum fréttum nema í stuttan tíma en fingraför Sigmundar fóru fljótlega að sjást. Mér fannst um haustið 2001 að hann væri búinn að finna þessa fínrötuðu línu sem nauðsynlegt væri að rata þegar blaðið væri ágengara en önnur blöð - að veita ráðandi öflum ríkt aðhald án þess þó að fara yfir strikið.

En þegar leið að vori 2002 fór annað að koma í ljós. Óli Björn Kárason aðalritstjóri ákvað að ráða Ólaf Teit Guðnason til starfa, en hann hafði þá verið í fjögur ár sem fréttamaður á Fréttastofu Útvarpsins og gert þar prýðilega hluti. Og það skal tekið fram að ég er ekki á því að Ólafur Teitur sé slæmur blaðamaður. En það sem hann kom með, sem var slæmt fyrir DV, var mikil hægri slagsíða sem Óli Björn hefur örugglega ekki dregið úr. Ég held að ég sé nú ekki að segja neitt nýtt með þessu, því Páll Ásgeir Ásgeirsson, sem var blaðamaður á DV á þessum tíma, gerðu þessu skil í frægri grein fyrir nokkru.

En allavega, það urðu uppsagnir, og ég lenti í þeim í apríl 2002. Ég heyrði þá sögu síðar að DV hafi í raun verið orðið gjaldþrota þegar það flutti frá Þverholtinu í Skaftahlíðina þennan sama mánuð. En allavega, rúmu ári seinna var blaðið komið í þrot enda var það löngu búið að glata trúverðugleika sínum með þeirri hægri slagsíðu sem komin var á blaðið.

En síðan kom endurreisnin. Blaðið varð ágengara en þekkst hafði áður hér á landi. Það hneykslaði marga og ýmsir tjáðu sig um vafasöm vinnubrögð sem viðhöfð voru á blaðinu. En ef marka má útgefendur blaðsins var blaðið að ganga vel í fyrra en síðan hallaði undan fæti í janúar þegar málið kom upp með manninn sem framdi sjálfsmorðið á Ísafirði.

Ef svo er, að dregið hafi úr auglýsingasölu og lausasölu blaðsins eftir þetta, þá tek ég ofan fyrir þjóðinni. Þá hefur hún virkilega sýnt það að hún lætur ekki bjóða sér hvað sem er, og hætti að kaupa blaðið þegar það fór yfir strikið. Það var hins vegar áhyggjuefni við þetta að það hafi þurft sjálfsmorð til að menn áttuðu sig á því, vegna þess að staðreyndin var sú að menn voru orðnir samdauna þessum fréttaflutningi blaðsins. Þessi tiltekni uppsláttur vakti engin sérstök viðbrögð fyrr en fréttist af sjálfsmorðinu, fram að því var þetta bara eins og hver annar ósmekklegur uppsláttur DV sem menn virtust hættir að kippa sér upp við. Vissulega gerði blaðið margt gott, og það besta sem hefur líklega komið frá þeim er umfjöllunin um handrukkarana sem sýndi mikið hugrekki og var löngu orðin þörf.

Það slæma við þetta er að það er horfinn af sjónarsviðinu fjölmiðill sem gengur lengra en aðrir fjölmiðlar. Slíkur fjölmiðill er nauðsynlegur hér á landi. Að því leyti finnst mér það skrítið að útgefendur hafi gefist upp á að reka miðilinn bara út af tapi á einum ársfjórðungi. Nýir ritstjórar DV sem ráðnir voru í janúar áttu að finna þessa vandrötuðu línu sem ég vil meina að DV hafi fundið á sínum tíma undir ritstjórn Sigmundar Ernis. Þó að þeim hafi kannski ekki tekist það (reyndar spurning hvort þeir hafi fengið nægan tíma til þess) þarf það ekki að þýða að öðrum geti ekki tekist það. Og að því leyti vona ég að ágengur fjölmiðill verði stofnaður sem finni þá línu sem DV fann á sínum tíma.

Eitt að lokum: Páll Baldvin talaði um það í Kastljósinu í gær að DV hefði haft mikil áhrif á framsetningu annarra fjölmiðla. Ég er ekki viss um að það sé alls kostar rétt. Eina sem mér finnst kannski styðja þetta er forsíðufrétt Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum þar sem stúlka sagði frá nauðgunartilraun við Hafravatn. Það var nokkuð úr karakter fyrir Moggann. En að öðru leyti sé ég ekki þessi áhrif. Ef einhver miðill hefur haft þau áhrif að meira sé fjallað um líf opinberra persóna en áður þá er það Séð og heyrt. Án þess að ég sé einhver sérstakur aðdáandi þess fjölmiðlis þá hafa þeir viðhaft blaðamennsku sem greinilega gengur í fólk og í kjölfarið hafa aðrir fetað svipaða braut. Ég held því að áhrif þess blaðs séu mun meiri á íslenska fjölmiðlun síðustu árin en nokkurn tíma DV.

2 comments

sunnudagur, apríl 23, 2006

Lífseinkunn

Er þetta ekki bara asskoti gott?

This Is My Life, Rated
Life: 8.4
Mind: 8.1
Body: 6.9
Spirit: 6.4
Friends/Family: 6.8
Love: 9.1
Finance: 8.6
Take the Rate My Life Quiz

0 comments
Hitt og þetta

Datt ekkert betra heiti í hug eftir svona langt blogghlé.

Var óvenju lengi að ná mér niður eftir leik Liverpool og Chelsea í gær. Þegar Liverpool komst yfir horfði ég fram á klukkutíma nagandi taugaspennu. En hún var einfaldlega ekki til staðar því Chelsea átti aldrei séns í fyrri hálfleik. Svo varð maður ennþá slakari þegar við komumst í 2-0. En eftir að Chelsea náði að minnka muninn var ég gjörsamlega á nálum, enda jókst pressan hjá þeim til muna. Fögnuðurinn var því þeim mun meiri þegar flautað var til leiksloka.

En viðbrögð Jose Mourinho eftir leikinn voru þess eðlis að maður skilur vel að hann njóti engrar virðingar í Englandi. OK, hann talar um færi sem liðið misnotaði, sem var alveg rétt. En það voru í raun og veru bara tvö almennileg færi sem Chelsea fékk að markinu frátöldu. Fyrst í fyrri hálfleik þegar Drogba komst í gegn, en það átti líka að vera rangstaða. Og svo færið hjá Joe Cole í lokin, sem ég skil ekki enn hvernig hann fór að því að klúðra.

En svo fer hann að tala um umdeilda dóma. Fyrst um aukaspyrnuna sem markið kom úr. Hann tiltekur náttúrulega ekki að Peter Crouch fékk dæma á sig aukaspyrnu nokkrum mínútum áður fyrir nákvæmlega samskonar brot. Það var réttur dómur, og þessi var það líka. Síðan segir hann að markið hjá John Terry sem dæmt var af hefði átt að standa. Síðan hvenær var það löglegt að nota öxl varnarmannsins sér til aðstoða þegar maður stekkur upp? Meira bullið?

Síðan klikkir hann út með því að segja að Chelsea hafi fengið 45 stigum meira en Liverpool yfir þessi tvö tímabil (þetta eru reyndar 52 stig samkvæmt mínum kokkabókum en það er annað mál). Ehrm...já, telst það ekki framför að í fyrra vorum við 37 stigum á eftir Chelsea, en erum núna 15 stigum á eftir þeim? En ef hann vill lifa í afneitun er það náttúrulega besta mál :) Mér finnst það allavega segja sitt um okkar lið að á þessum tveimur árum höfum við komið í veg fyrir þátttöku Chelsea í tveimur úrslitaleikjum. Sem er mjög sætt.

Vonandi næst þá þessi titill í hús...annars væri þessi sigur til einskis.

***

Allt fínt að frétta af RÚV. Menn velta hins vegar mikið fyrir sig hvaða þýðingu það hefur að það sé að verða að hlutafélagi, en það bendir allt til þess núna. Það virðist þó ljóst að allt mun velta mun meira á stjórnandanum. Held að menn hafi samt almennt ágæta trú á Páli Magnússyni. En það er sérstakt að vinna þarna á svona umbrotatímum...þó að margir vilji reyndar meina að það séu alltaf umbrotatímar á RÚV.

***

Voðalegt andleysi er annars yfir mér núna.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?