<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, desember 02, 2006

Aftur í hversdagsleikann

Byrjaði aftur að vinna í gær eftir fæðingarorlof. Og það var ekkert smámál sem beið þegar ég mætti kl. 6 um morguninn, uppsögn Margrétar Sverrisdóttur úr starfi framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslyndra, sem var að sjálfsögu heitt mál. Hvað sem segja má um réttmæti þessarar ákvörðunar getur þetta mál ekki hafa komið á óheppilegri tíma fyrir flokkinn, eða rétt eftir að hann mælist með 11% fylgi í skoðanakönnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir halda á þessu máli.

Það verður hins vegar nóg hjá mér að gera á næstunni því mér hefur verið falið að sjá um áramótaannál Fréttastofu Útvarpsins, þ.e. innlenda hlutann. Skemmtilegt en jafnframt tímafrekt verkefni, en það verður gaman að reyna að gera þessu gríðarlega viðburðaríka fréttaári skil á einum klukkutíma. Ég verð allavega ekki í vandræðum með að finna viðburði í þáttinn!

***

Í dag voru syngjandi jól í Hafnarborg. Þangað hef ég mætt á hverju ári síðustu ár, aðallega til að taka myndir, en í dag fór ég eingöngu til að horfa á Líf syngja með Kór Áslandsskóla. Tónlistarstarfið í þessum skóla er alveg ótrúlega gott og þar munar mikið um að hafa öflugan og áhugasaman tónmenntakennara. Allavega stóð kórinn sig með mikilli prýði eins og við var að búast.

Hefðin er líka skemmtileg, en þarna syngja allir kórar í Hafnarfirði og Álftanesi jólalög í 20 mínútur hver og þar sem mikill fjöldi kóra er á svæðinu er þetta standslaust prógramm frá kl. 11 til sjö eða þar um bil. Og svo koma menn og fara eins og þeir vilja.

Heyrði samt raddir um að menn hefðu saknað þess að það hefði ekki birst í bæjarblöðunum í hvaða röð kórarnir myndu syngja. Ég var jafnvel spurður hvort að þetta hefði verið aflagt eftir að ég hætti! Ég vona að svo sé ekki.

***

Liverpool fann útisigur í dag, og þegar það gerðist brast stíflan svo um munaði. Ef við vinnum góðan sigur í Tyrklandi líka ætti að vera komið blússandi sjálfstraust í liðið á útivöllum. Og það fáránlega er að þrátt fyrir að við séum búnir að tapa fimm leikjum í deildinni erum við í 3.-6. sæti í deildinni! Að vísu eiga tvö af þeim liðum sem eru með jafnmörg stig og við leik til góða en þetta er engu að síður ótrúlega staða miðað við hvað manni finnst Liverpool-liðið hafa verið brokkgengt í vetur. En vonandi er þetta upphafði að einhverju stærra og meira fyrir veturinn.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?