<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 10, 2006

Harðsperrur

Úff, er búinn að vera hrikalega stífur og stirður í dag. Var aðeins stífur í löppunum í gær eftir ræktina á mánudaginn. Tók vel á því þar enda er prógrammið sem ég er á í Nautilus nokkuð erfiðara en það sem ég var á í Technosport...sem er bara gott mál.

En svo var það þriðjudagsboltinn í gærkvöldi...og sá tími tók óvenju mikið á. Tveir hnífjafnir leikir og mikil barátta þar sem maður gaf gjörsamlega allt í leikinn. Það finnst á löppunum á mér í dag...það er langt síðan ég hef verið jafn stirður eftir boltann og ég hef verið í dag. Gott að vera í vaktafríi á svona dögum.

***

Sjónvarpið mitt er bilað...og það á ansi sérstakan hátt. Það upplitast myndin neðst í vinstra horninu...en ef ég hins vegar tek það úr hillusamstæðunni og set það meter framar er myndin alveg eins og hún á að vera! Alltaf er maður að sjá eitthvað nýtt. Ætla samt ekki að kaupa nýtt sjónvarp fyrr en allur skjárinn er orðinn upplitaður!

***

Verð að hrósa Kastljósinu fyrir frábæra umfjöllun um Baugsmálið. Fannst þeir gera þetta mjög vel og hlutlaust og skil eiginlega ekki kvartanir málsaðila yfir þessu, sérstaklega í ljósi þess að þeim var boðið að tala þátt. Mér fannst sjónarmið þeirra samt koma fyllilega fram í þættinum og langt frá því að þessu umfjöllun hafi verið einhliða. Glæsilegt hjá Sigmari og félögum!

0 comments

mánudagur, maí 08, 2006

Vaktafrí

Aldrei átti ég von á því að ég yrði í vandræðum með hvað ég ætti að gera heima hjá mér í vaktafríum. Kannski eru þetta merki um að ég hafi verið að vinna aðeins of mikið áður.

Ég er semsagt í vaktafríi í dag, á morgun og miðvikudag. Síðan vinn ég á fimmtudag og föstudag og er svo í fríi í fimm daga.

Það var reyndar nóg að gera í dag. Fór á fætur í rólegheitum og kláraði greinar fyrir löngu tímabært afmælisblað Hauka, fór í ræktina rétt fyrir hádegi, tók svo á móti vinahóp úr bekknum hennar Lífar og sá hópur var hjá okkur milli tvö og fimm. Svo var farið í göngutúr í góða veðrinu og horft á sjónvarpið um kvöldið.

Það merkilega við þennan dag er að mér fannst ég ætti einhvern veginn að vera að gera eitthvað vinnutengt. Þetta er auðvitað hugsun sem ég vandist hjá Víkurfréttum, þar sem ég var með vinnuna hangandi yfir mér allan sólarhringinn. Nú er maður hins vegar í alvöru fríi þegar maður er í vaktafríi.

Það á eftir að taka mig nokkurn tíma að venjast þessu.

1 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?