<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 04, 2005

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, páskafríið...

Já, þá er það ákveðið, bókað og borgað (að vísu ekki af mér). Mamma var búin að bjóða okkur með sér í utanlandsferð um páskana en það var ekki strax ljóst hvert yrði farið. Vorum að hugsa um Kýpur eða Krít en samt var talið full kalt þar á þessum árstíma. Nú er hins vegar búið að bóka flug og gistingu í Orlando í Flórída. Farið verður af stað 17. mars og komið heim að morgni 29. mars. Við munum fljúga í gegnum Boston og gista þar eina nótt á leiðinni út. Það er óneitanlega kominn spenningur í fjölskylduna og það verður ljúft að slappa af. Palli Ketils gaf mér góðfúslega frí á þessum tíma þó að blöð haldi áfram að koma út.

Þetta var fyrst í stað samt ekki sársaukalaus ákvörðun því að ég fórnaði ferð á Liverpool-Everton, en ég hefði væntanlega farið á Melwood og tekið viðtöl við Liverpool-leikmenn og síðan að sjálfsögðu farið á stórleik á Anfield. En mér er það að sjálfsögðu ljúft að fórna þeirri ferð fyrir afslöppun með fjölskyldunni. Ég hlakka sérstaklega til að fara með dóttur mína í SeaWorld og Disneyland. Svo er ég líka að gæla við að komast á NBA-leik með Orlando Magic en það eru tveir leikir á dagskrá á þeim tíma sem ég verð úti.

En nú bíðum við spennt eftir að komast í 25 stiga hitann um páskana...mmmmmm :)

Enski boltinn á Skjá einum

Mikið hefur maður séð rætt um þann úrskurð að ekki megi sýna enska boltann á Skjá einum með enskum þulum. Ég get hins vegar ekki séð að úrskurðurinn hefði getað orðið annar og hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það hafi lýst fullkomnu metnaðarleysi að hafa ekki íslenska þuli á leikjum þar, rétt eins og Sýn gerði. Ástæðan var reyndar sú að Skjár 1 hafði ekkert efni á því.

Menn eru að tala um þetta sem forræðishyggju en það er hreinlega af og frá. Mér finnst það hreinlega ekki til of mikils ætlast að það efni sem er á íslenskum sjónvarpsstöðvum sé annaðhvort á íslensku eða með íslenskum texta. Ef menn vilja endilega hafa efnið á ensku geta menn hreinlega horft á erlendar sjónvarpsstöðvar. Mér finnst þetta ekki spurning í mínum huga og í því felst engin forræðishyggja.

Mér finnst umfjöllun um enska boltann á Skjá einum líka verulega ábótavant og þessir upphitunarþættir alls ekki standa undir því nafni. Mér finnst vanta ákveðinn faglegan vinkil á það í bland við spjall og skoðanaskipti, en hjá Skjá einum er það síðarnefnda alls ráðandi. En þar er spurning hvort úr þessu verði bætt þegar þessu verður læst næsta vetur, sem ég geri fastlega ráð fyrir. Þá kemur meiri peningur inn, og þá vonandi meiri metnaður.

0 comments

mánudagur, janúar 31, 2005

zzzzzzzzzzz

Lítil svefn í nótt. Stelpan svaf upp í þar sem hún kvartaði eitthvað yfir magaverk og var mjög óróleg. Því miður minnkaði óróinn ekki yfir nóttina og það var óspart sparkað í mig í svefninum, yfirleitt þegar ég var rétt nýsofnaður. Skemmtilegt eða þannig...en þó ekki hægt að kenna stelpugreyinu um. Hún gat ekkert að þessu gert og ég hafði ekki vit á að færa hana yfir í sitt rúm.

Sjónvarpið

Loksins eru spennandi sunnudagskvöld framundan. Uppáhaldsþátturinn minn í sjónvarpi fyrr og síðar (fyrir utan íþróttaþætti), 24, byrjaði í gærkvöldi og þættirnir tveir lofa góðu. Ég mun sitja límdur við tækið næstu sunnudagskvöld yfir þessari snilld.

Handboltinn

Handbotatali mun ljúka hér, þó að ég hefði gjarnan viljað halda því uppi lengur. Ferlegt hvernig fór en Rússaleikurinn hefði aldrei unnist. Kom mér samt á óvart hvað vörnin varð allt í einu lek í seinni hálfleiknum. Alsír-leikurinn var hins vegar mjög fínn þó að ég hafi reyndar haft það á tilfinningunni að Alsírbúar hafi verið eitthvað sloj. Viggó er hins vegar með framtíðarlið og nú verður það hans verk að byggja það upp fyrir næstu stórmót.

Popppunktur

Spilaði á laugardagskvöldið popppunkt við Jóa, Jón Heiðar og Arnar. Þekking á íslenskri tónlist fleytti mér langt og ég stóð uppi sem sigurvegari. Ég er til í rematch hvenær sem er ;)

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?