<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Gekk vel fyrir sig

Vakin hefur verið athygli á því á mörgum bloggsíðum, og reyndar einnig í samtölum við mig, að fjölmiðlar tali um að hátíðahöld hafi gengið vel fyrir sig þó að ýmislegt hafi gengið á. Aðallega er þar talað um Akureyri í þessu sambandi, en þar komu upp hátt í 70 fíkniefnamál, einn höfuðkúpubrotnaði eftir líkamsárás, þrjár nauðganir voru tilkynntar og á annan tug bíla voru skemmdir.

Þar sem ég sá um verslunarmannahelgarumfjöllun hjá RÚV á sunnudeginum má segja að ég sé einn af þeim sem tekið hafi þátt í þessari jákvæðu umfjöllun. Spurningin er alltaf hversu langt á að ganga í að leggja mat á ástandið þegar maður er ekki sjálfur á staðnum. Ég gerði yfirreiðarfrétt fyrir hádegisfréttirnar á sunnudeginum þar sem ég sagði frá því sem gerðist á öllum útihátíðum, og á Akureyri voru ekki aðeins mótshaldarar ánægðir, heldur lögreglan líka. Á maður þá að fara að segja: "Nei, þetta er víst ömurlegt, það er greinilega allt í rugli hérna"? Maður getur ekki sem fréttamaður lagst í slíkt dómarasæti.

Reyndar held ég að fréttastofa Útvarpsins hafi staðið sig ágætlega í að koma með báðar hliðar þar sem tekið var viðtal við óánægðan íbúa í fréttum okkar á mánudag.

Það er alltaf matsatriði hversu mikið þarf að fara úrskeiðis til þess að hátíð teljist hafa farið illa fram. Einhverjir eru sjálfsagt á því að þetta hafi allt farið í bál og brand en ég er ekki endilega viss um að ég sé á sama máli þegar litið er á þann fjölda sem kom í bæinn. En eins og ég sagði, ég var ekki á staðnum og get ekki dæmt um það.

3 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?