<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 03, 2006

Eurovision

Jahéra. Ég er enn ekki búinn að blogga neitt um Eurovision. Skandall. En nú kemur bloggið fyrir þessi tvö úrslitakvöld sem liðin eru.

Á fyrsta kvöldinu voru þrjú lög áberandi best og komust þau áfram. Mér finnst reyndar bæði lagið Það sem verður (í flutningi Friðriks Ómars) og lagið Þér við hlið (í flutningi Regínu Óskar) vera sigurstrangleg. Strengjadansinn er nokkuð skemmtilegt, en samt síðri lagasmíð en hin tvö. Ég var hins vegar ekki sáttur við að lag Ómars Ragnarssonar kæmist áfram á kostnað lagsins sem Matti í Pöpunum söng, en það lag kemst reyndar hugsanlega áfram sem fimmta sætis lag. Rósa benti reyndar á það áður en úrslitin voru ljós að lag Ómars höfðaði töluvert til eldra fólks og trúlega hefur það fleytt því áfram. Hin þrjú lögin áttu aldrei möguleika.

Á kvöldi nr. tvö voru lögin í heild hins vegar mun síðri. En eins og á fyrra kvöldinu voru þrjú lög áberandi best og komust þau áfram. Ég var hins vegar ósáttur við að Salsalagið sem Sigurjón Brink söng skyldi komast áfram. Þar hefði ég viljað sjá lag Eyjólfs Kristjánssonar, en það komst ekki einu sinni að sem fimmta sætis lag heldur var það lagði um Sæma rokk sem komst þangað í staðinn. Skil það ekki, það lag er einfaldlega hrútleiðinlegt. Lagið sem Guðrún Árný söng gæti alveg náð langt, enda virðist það oft höfða til Eurovisionáhorfenda þegar söngvarar (sérstaklega konur) fara yfir vítt tónsvið og ná hátt upp.

Ég er þegar farinn að hlakka til næsta laugardags :)

***

Litla barnið mitt er átvagl. Það vildi sífellt fá meira og meira að drekka og náði ekkert að sofa almennilega. Ljósmæðurnar skrifa þetta á vaxtarkipp, sem er vonandi rétt. En með þessu áframhaldi verður stelpa orðin tveir metrar á hæð fyrir fermingu.

2 comments

sunnudagur, janúar 29, 2006

Margs konar tíðindi

Já, það hefur margt gerst síðustu daga og þeir verið að ýmsu leyti óvenjulegir. Og allt kemur þetta auðvitað til af því að barnið langþráða fæddist á föstudaginn. Það er reyndar spurning hversu mikið barn þetta er því að þegar það kom loksins var það tekið með keisara og var stelpan þá orðin 20 merkur 0g 54 sentímetrar. Algjör bolti. Eins og gefur að skilja hafa síðustu dagar mikið einkennst af þessu.

Rósa fór í gangsetningu á fimmtudaginn sem gekk ekki upp og þegar ekkert var farið að gerast um hádegið á föstudag var ákveðið að fara í keisaraskurðinn. Það gerði það auðvitað að verkum að upplifunin af þessari fæðingu var allt önnur en hjá Líf sem fæddist með eðlilegum hætti. Ég var þó feginn að geta verið viðstaddur fæðinguna en fyrst mænudeyfingin virkaði vel á Rósu mátti ég vera hjá henni. Ég sá reyndar ekki aðgerðina sjálfa þar sem tjald var dregið fyrir og ég sat bara við höfðalag Rósu (enda örugglega ekkert vit í því að vera að horfa á svona hluti) en mér var leyft að sjá þegar kom að því að taka á móti barninu. Það var magnað að sjá það, ég segi ekki meira.

Það góða við keisaraskurðinn er að þetta er alveg sársaukalaust fyrir Rósu og gengur fljótt fyrir sig. Gallinn er hins vegar að hún er ennþá á spítalanum, en ef hún hefði fætt eðlilega hefði hún getað verið komin heim mun fyrr. Hún er hins vegar væntanleg heim með barnið annaðhvort á morgun eða hinn.

Ég hef hins vegar af þessum sökum eytt miklum tíma á Landspítalanum upp á síðkastið. Ég var þar allan fimmtudaginn, svaf á stofunni hjá Rósu um nóttina í Lazy boy sem þar var, og var svo líka allan föstudaginn hjá henni til kvölds (kom heim með Líf fyrir Idolið). Var síðan þar stóran hluta laugardagsins og dagsins í dag.

Það var helst eitt sem fór í taugarnar á mér þegar ég dvaldi þarna heilu dagana og það var að geta ekkert fengið að borða. Maður vildi auðvitað ekki fara neitt langt meðan maður var að bíða eftir því að gangsetningin tækist en þá varð ég að sætta mig við samlokur og jógúrt sem seld var í sjálfsölum. Rósa fékk að sjálfsögðu sinn spítalamat en ekki var neinn kostur á slíku fyrir mig. Þetta finnst mér dálítið aðfinnsluvert. Ég hefði haldið að það væri í svona tilvikum hægt að gefa kost á heitri máltíð og ég hefði alveg verið tilbúinn til að borga fyrir slíka máltíð þarna. En þess í stað var maður sífellt svengri þegar leið á dvölina.

Annars hefur maður lítið út á þessa dvöl að setja, starfsfólkið þarna er frábært og reyndist okkur gríðarlega vel. En nú bíður maður bara spenntur eftir að fá barnið heim.

Það er líka gott að vera kominn í fæðingarorlof næsta mánuðinn. Það er eiginlega sérstaklega dýrmætt að fá að eyða þessum tíma með barninu og fjölskyldunni, og hefur reyndar ekki síður verið dýrmætt að hafa ekkert þurft að hugsa um vinnuna meðan á þessu hefur staðið. Það hefur verið ótrúlegur lúxus.

***

27. janúar ætlar að vera viðburðarríkur dagur í fjölskyldunni. Fyrir utan það að dóttir mín fæðist þá er þetta líka dagurinn sem pabbi dó fyrir 27 (aftur kemur þessi tala við sögu) árum. Hvaða merkingu ætli Hermundur talnaspekingur myndi leggja í þetta??

***

Og þennan sama dag sneri Robbie Fowler aftur heim. Þessi dagur verður ekki öllu stærri!!

5 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?