<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 13, 2004

Michael Owen - in memoriam
Þá er það orðið opinbert...Michael Owen er að fara.

Það er erfitt að einbeita sér að vinnunni þegar svona er (í bland við hitann sem er úti) svo það er best að koma þessu frá sér svo að maður geti gert eitthvað.

Það er hrikalega erfitt að horfa á jafn góðan leikmann og Owen fara frá Liverpool, sérstaklega þegar um svona uppalinn mann hjá félaginu er að ræða, en Owen hefur verið á mála hjá Liverpool frá því að hann var 11 ára gamall. Owen hefur skorað mörg frábær mörk fyrir okkur og oft yljað okkur Púllurum með snilldartöktum. En síðan um áramót hefur eitthvað verið að hjá honum. Hvað það er, veit ég ekki.

Menn hafa verið mjög gjarnir á að segja að Owen hafi ekkert getað í tvö ár. Það er bara rugl og sýnir hvað fólk er fljótt að gleyma. Owen var frábær frá byrjun tímabilsins og þangað til í október, en þá meiddist hann í leik gegn Arsenal. Síðan þá hefur hann ekki verið upp á sitt besta. Ég hef trú á því að þessi samningamál hafi eitthvað verið að plaga hann, þó að ég hafi ekki hugmynd um það. Öðru hverju síðan um áramót hefur hann þó sýnt hvers hann er megnugur og skemmst er að minnast marksins sem hann skoraði með enska landsliðinu gegn Portúgal á EM. Mjög magnað mark, og nokkuð sem vakti vonir hjá mér um að nú væri hann kominn í sitt besta form.

Vonir mínar urðu ennþá meiri þegar hann lýsti því sjálfur yfir í viðtali að nýr samningur væri að nálgast. Það virðist svo hafa snögglega breyst þegar Real Madrid lýsti yfir áhuga. Ég verð að segja það að ég er mjög svekktur út í Owen fyrir þessa framkomu. Það var algjör óþarfi fyrir hann að vera með þessar yfirlýsingar ef að nýr samningur fór eftir því hvort eitthvað tiltekið félag lýsti yfir áhuga. En fyrst Owen vildi fara var ekkert um annað að ræða fyrir Liverpool en að láta hann fara til að fá allavega eitthvað fyrir hann. En 8 milljónir punda er alltof lítið fyrir þennan snilling þó að einhver leikmaður frá þeim fylgir með í kaupunum - leikmaður sem ég veit reyndar ekkert um en vona að eigi eftir að reynast okkur vel.

Ég get ekki annað en óskað Owen góðs gengis hjá Real...þetta var eini staðurinn sem hann í raun gat farið á sem ég er sáttur við. En ég er afar ósáttur við hvernig þetta bar að og að mínu viti á Owen sjálfur mesta sök á þeirri atburðarrás. En hann fór þó allavega ekki á Bosman eins og annar ónefndur Liverpool-leikmaður gerði...og það ber að virða.

Nú er bara að vona að Baros og Cisse smelli í sókninni og Pongolle gangi vel að leysa þá af.

0 comments

Argh!!!

Það er allt að ganga á afturfótunum í fótboltanum, eða hefur gert það frá því að Liverpool vann Grazer AK á þriðjudag.

Hvað Liverpool varðar er allt logandi í fregnum um brotthvarf Michael Owen og allt bendir til þess að hann sé að fara til Real Madrid. Ég segi í raun það sama og ég sagði um Steven Gerrard, ef hann vill fara þá á hann að fara. Gerrard komst sem betur fer að þeirri niðurstöðu að hann vildi ekki fara, og spurning hvaða niðurstöðu Owen á eftir að komast að. Hann kringumstæður eru reyndar aðeins öðruvísi út af þessum samningamálum og mér finnst það heldur lúalegt eins og það kemur út að segjast vera alveg að fara að gera nýjan samning en síðan hætta við allt saman af því að Real Madrid sýnir honum áhuga. Þannig lítur þetta allavega út og þetta dæmi hefur orðið til þess að við fáum mun minn fyrir hann en við hefðum annars fengið. Ég vona að hann komist að þeirri niðurstöðu að hann vilji vera áfram, en ef ekki þá verður bara að hafa það.

KR-ingum gengur frekar illa, eru dottnir út úr bikarkeppninni og eitthvað virðist vera að þar á bæ. Það væri allavega rétti tíminn til að rífa sig upp á sunnudaginn þegar við þurfum að fara upp á Skaga.

Og svo liðið sem er orðið mitt lið nr. 2 vegna starfsins, FH. Þeir glutruðu niður tveggja marka forskoti í Evrópuleik gegn Dunfermline í gær, leik sem þeir áttu að vinna. Það hefði ekki verið slæmt að fara með 2-0 forskot til Skotlands, en þessi leikur var enn ein sönnun þess að það borgar sig ekki að draga sig til baka of snemma, allra síst í Evrópuleik þar sem mörk á útivelli eru gulls ígildi. Ég tel samt að FH eigi alveg möguleika á að vinna þetta lið í Skotlandi, en þá verða þeir að ná upp jafn góðum leik og þeir náðu upp lengst af í gær. Vonandi tekst þeim það.

Pósturinn

...er ekki að gera sig þessa dagana. Enginn póstur kom til mín í gær, ekki einu sinni fjölpósturinn. Það kemur yfirleitt mikið af bæklingadrasli á fimmtudögum og svo líka Fjarðarpósturinn, en það kom ekki arða til mín og samstarfskona mín, sem býr líka í Áslandinu, fékk engan póst heldur. Ástæðan fyrir því að ég beið spenntur eftir póstinum var þó ekki tilhlökkun yfir að fá allan þennan fjölpóst heldur var ég að bíða eftir bréfi frá Áslandsskóla með lista yfir nemendur í bekknum sem Líf dóttir mín verður í þegar hún byrjar í skólanum í haust. Ég vissi fyrir að það var búið að senda slíkt bréf út.

Ég gerði tvær tilraunir til að kvarta yfir þessu í gær. Fyrst hringdi ég í eitthvað þjónustuver hjá Íslandspósti. Þar vissi enginn neitt en mér var boðið að leggja inn kvörtun, sem ég gerði. Ég ákvað síðan að prófa að hringja í Nóatún þar sem póstafgreiðslan í Hafnarfirði er. Þar var mér vísað í eitthvað bréfberanúmer, og þar fékk ég þau svör að mikið hefði verið dreift af fjölpósti og að hann hefði farið eitthvað seint út. Ehrm...er þá "seint" sama og "alls ekki"????

Skelfilegt, hreint út sagt skelfilegt!!


0 comments

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Undarlegur dagur

Dagurinn í gær var undarlegur, ekki bara veðurfarslega.

Veðrið í gær, og að sumu leyti í dag líka, minnir mig á Bandaríkin. Gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem ég steig úr flugvél í Bandaríkjunum 14 ára gamall. Þá var lent í Chicago, og þegar ég steig út var það eins og að labba inn í gufubað. Þó að það sé kannski ekki alveg eins heitt núna og á þessum degi í Chicago er það kannski rakinn sem eru mestu viðbrigðin, því ég hef aldrei upplifað jafn mikinn raka hér á Íslandi.

Það var sérkennilegt að vinna í gær, þar sem hitinn var eiginlega sá sami inni og úti, ef eitthvað er var hlýrra úti. Það sérkennilega var hins vegar að blaðið gekk óvenju vel, svo vel að ég gat gefið mér tíma til að skreppa á Players og horfa á leik Liverpool og Grazer AK. En Liverpool eru semsagt hin undarlegheit gærdagsins.

Fyrst var Murphy seldur. Ég sé aðallega eftir honum af því að hann er enskur, plús það að hann er góð vítaskytta og vandséð hver tekur við því hlutverki. Þá er einnig sú tölfræði heillandi að Liverpool tapaði aldrei leik sem Murphy skoraði í. En það er samt slæmt ef enskum leikmönnum er að fækka of mikið. Ég vil allavega ekki hafa stöðuna þannig að Gerrard og Carragher verði orðnir einir eftir.

Mikið er rætt um Owen núna og það verður að segjast eins og er að þó að Benitez tali um að bekkjarseta hans hafi verið taktísk ákvörðun kemur það illa út að hún hafi átt sér stað á þessum tímapunkti. Ég hef ekki hugmynd um hvort að Owen sé í viðræðum við Real en þögn Benitez gefur til kynna að í besta falli séu samningaviðræður hans á mjög viðkvæmu stigi. En vonandi höldum við Owen...það vita allir hvað hann getur.

Annars var ég sáttur við fyrri hálfleikinn í leiknum í gær en seinni hálfleikurinn var hreinlega leiðinlegur. Við bökkuðum dálítið en þetta lið virtist ekki geta nýtt sér það og það eru engar líkur á að þeir slái okkur út, þeir eru það slakir. Ég myndi samt helst vilja sjá að þeir verði teknir almennilega í bakaríið á Anfield.


0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?