<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, desember 19, 2005

Handboltinn

Las úttekt Sigmundar Ó. Steinarssonar í Morgunblaðinu í dag þar sem hann var að bera saman ólík handboltalandslið, gefa mismunandi stöðum á vellinum M og leggja þar með saman hversu sterkir landsliðshóparnir væru. Ég man ekki alveg að hvaða niðurstöðu hann komst, því ég ákvað eiginlega strax að þessi úttekt gæti ekki verið marktæk.

Sigmundur nefnir réttilega í úttektinni að ferill síðustu landsliðsþjálfara hefur verið þannig að þeir hafi byrjað frábærlega en síðan hafi fjarað undan öllu saman. Í því ljósi er þessi samanburður ennþá skrítnari. Hann velur nefnilega þann möguleika að bera saman liðið sem vann B-keppnina 1989 undir stjórn Bogdans, liðið sem varð í fimmta sæti á HM 1997 undir stjórn Þorbjörns Jenssonar og liðið sem varð í fjórða sæti á EM í Svíþjóð 2002.

Í fyrsta lagi: Af hverju liðið sem vann B-keppnina? Af hverju var það svona stórkostlegt afrek? Af hverju ekki að taka lið frá upphafsárum Bogdans, þ.e. liðið sem varð í sjötta sæti á Ólympíuleikunum 1984 eða í sjötta sæti á HM í Sviss 1986 ef það átti að taka fyrir eitthvað lið sem Bogdan stjórnaði. Liðið sem vann B-keppnina var í raun allt nánast á síðasta snúningi í handboltanum og stór hluti þess hætti með landsliðinu árið eftir. Það var löngu farið að fjara undan þessu liði þegar B-keppnin átti sér stað.

Í öðru lagi: Hvers vegna í ósköpunum er liðinu sem hafnaði í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 sleppt? Það var hápunkturinn á ferli Þorbergs Aðalsteinssonar en það mætti halda að hann hafi aldrei verið landsliðsþjálfari af lestri þessarar greinar.

Þessi tvö atriði, sérstaklega það seinna, finnst mér gera það að verkum að úttektin er algjörlega marklaus. Sem er synd, því marktækur samanburður hefði getað verið mjög fróðlegur.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?