<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 19, 2003

Norðurljós

Í gærkvöldi upplifði ég eitt það magnaðasta náttúruundur sem ég hef séð. Ég var að mynda kertafleytingu á Víðistaðatúni sem átti sér stað í kjölfar minningarathafnar um fórnarlömb umferðarslysa. Það var falleg stund í frábæru veðri. Ég ákvað síðan að fleyta einu kerti sjálfur og taka fleiri myndir og var því orðinn einn eftir á svæðinu þegar ég ætlaði að leggja af stað heim.

Þá sá ég Norðurljós á himni. Þetta var ekkert mikið í fyrstu en ég ákvað samt að rífa upp myndavélina til að reyna að ná mynd af þessu. Og þá var eins og losnaði eitthvað úr læðingi í náttúrunni og ólýsanlegar breytingar urðu á Norðurljósunum...þau breiddu úr sér, liðuðust áfram og dofnuðu að lokum út. Ég á eftir að skoða almennilega myndirnar sem ég tók af þessu en ég mun setja þær inn á vf.is á eftir ef ég kemst að raun um að þær eru nothæfar. En mér fannst þetta gjörsamlega magnað.

0 comments

fimmtudagur, september 18, 2003

Brimklóarball

Ég held að það sé varla nokkur spurning að mesti viðburður helgarinnar í Hafnarfirði er ball með Brimkló í Kaplakrika á laugardag. Þó að ég sé tiltölulega ungur að árum, a.m.k. nógu ungur til að vera ekki kominn til vits og ára á blómaskeiði Brimkló, þá hef ég alltaf verið hrifinn af þessari hljómsveit, og hef reyndar verið frá barnæsku. Ég spilaði t.d. oft á fóninum heima þegar ég var krakki einu Brimkló-plötuna í tónlistarsafni mömmu og pabba, Sannar dægurvísur, en sú plata inniheldur hverja perluna á fætur annarri.

Ég væri alveg til í að reyna að kíkja á þetta ball...verð sennilega að gera það til að taka einhverjar myndir. Ég veit svosem ekki hversu sterk ballhljómsveit Brimkló er en miðað við sögurnar sem ég hef heyrt úr Stapanum um síðustu helgi þá er ég ekki frá því að þeir eigi eftir að ná upp ágætu stuði. Það á allavega eftir að koma í ljós hversu gamlir þeir eru í hettunni.

Hjólreiðar

Fór annars í gær að mynda upphaf reiðhjólaferðar sem Fjallahjólaklúbburinn stóð fyrir í tilefni af umferðar- og öryggisvikunni. Þar mættu 10 manns í hjólreiðaferð (alveg hissa á hvað komu margir miðað við að þetta var ekkert auglýst) og þetta rifjaði upp fyrir mér þá daga sem að ég hjólaði eins og brjálæðingur. Á unglingsárunum, þ.e. áður en ég fékk bílpróf, hjólaði ég úr Vesturbænum upp í Breiðholt og Árbæ án þess að finna nokkuð fyrir því. Ég veit að ég gæti þetta alls ekki núna þó að formið sé aðeins skárra eftir að ég tók upp á því að hlaupa reglulega. En auðvitað er þetta fínasti ferðamáti...þó að ég sjái ekki alveg að ég muni taka þetta upp með eins reglubundnum hætti og ég gerði áður. Til þess þarf ég allt of mikið á bílnum að halda í vinnunni.

0 comments

þriðjudagur, september 16, 2003

Skólabúningar

Í gærmorgun fór ég í heimsókn í Áslandsskóla, þar sem verið var að taka nýja skólabúninga í notkun. Þessi stutta heimsókn varð mér reyndar nokkuð umhugsunarefni, enda hef ég ekki verið hrifinn af þessari hugmynd hingað til. Ég varð einnig að athuga málin líka með það í huga að dóttir mín mun byrja í þessum skóla á næsta ári.

En einhvern veginn virðist skólabúningahugmyndin mun betri núna þegar ég er búinn að sjá þetta í framkvæmd. Spurningin er hvort hugmyndin um hallærislega skólabúninga bresku einkaskólanna, með v-hálsmála peysunum og pilsunum eða stuttbuxunum hafi setið of föst í mér. En þegar ég sá börnin öll klædd í eins peysur (sem voru vel að merkja mjög flottar) og öll voðalega ánægð með lífið fann ég mig knúinn til að endurskoða afstöðu mína. Ef skólabúningarnir líta sómasamlega út og eru í takt við það sem gengur og gerist þá sé ég í raun ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta up víðar.

Könnun í leikskólum sýndi að foreldrar leikskólabarna á Hjalla væru hlyntari skólabúningum en aðrir foreldrar, sem er ekkert skrítið því að þar eru notaðir skólabúningar. Það segir manni kannski líka að menn eru hræddir við það sem þeir þekkja ekki. Það kannski segir líka ýmislegt að Rósa, sem er kennari, er orðin mjög hlynnt þessu, ekki hvað síst vegna þess að það sjáist á fötum barnanna jhvort þau eru fátæk eða ekki.

Semsagt, núna finnst mér skólabúningar alls ekki slæm hugmynd...jafnvel bara býsna góð.

0 comments

mánudagur, september 15, 2003

Niðurtalning flutninga að hefjast

Nú er maður farinn að telja dagana þangað til flutt er í nýju íbúðina, enda gerðist ansi margt um helgina sem jók spenninginn.

Við skrifuðum undir kaupsamninginn á föstudaginn þannig að þar með er þetta endanlega komið í höfn. Á laugardaginn fengum við svo að kíkja inn til að mæla fyrir gluggatjöldum en ætlunin er að setja rimla í stofuna og eldhúsið og myrkvunartjöld annars staðar. Á laugardagskvöldið dundaði ég mér svo við að pakka bókum í kassa. Í dag förum við Rósa svo að skoða gardínur. Það er semsagt allt að gerast núna.

Helgin

...var annars róleg. Við vorum með gest hjá okkur um helgina, vin okkar hann Zippó, eða Sigtrygg eins og hann heitir víst (ekki spyrja mig af hverju hann er nefndur eftir kveikjara!!). Hann var á norrænu þingi svifflugmanna sem var haldið í Fjörukránni. Ég fræddist meðal annars aðeins um svifflug hjá honum...og komst að ýmsu sem ég vissi ekki. Eða...ég vissi í raun ekkert um þetta þannig að öll vitneskja um þessi mál varð ný. En nú er ég t.d. búinn að komast að því að maður þarf helst súrefni ef maður fer yfir 9.000 fet, að hægt sé að fá ágætis vél á 800 þúsund krónur, að það þurfi ekkert sérstakt próf á hana þó að maður verði auðvitað að læra á gripinn og svo að það er smá mótor í þeim. Maður varð því margs vísari eftir helgina.

Að öðru leyti sá ég Hauka bursta portúgalskt annarrar deildar lið í Evrópukeppninni á laugardag og kíkti síðan á uppskeruhátið yngri flokka Hauka í gær...en munstraði reyndar Rósu með myndavélina þar sem ég var í fótbolta. Hef ekki notað fjölskylduna á þennan hátt áður og vil helst gera sem minnst af því. En Rósa stóð sig vel í þessu neyðartilviki :)

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?