<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 06, 2005

Hvað gerir barnið?

Ég gerði mér allt í einu grein fyrir því að dóttir mín er komið á þann aldur að ég veit ekki um allt sem það er að gera. Kannski er langt síðan það gerðist, en lítið atriði í dag varð til þess að maður fór að spá aðeins í þetta.

Þannig er að tvær norska vinkonur Rósu eru í heimsókn hjá okkur, og í dag fóru þær í Biskupstungurnar þar sem þær ætla að gista eina nótt og koma heim aftur á morgun. Líf var því í heimsókn í vinnunni hjá mér í dag.

Vinnudagurinn endaði á því að ég fór á blaðamannafund hjá FH-ingum þar sem þeir kynntu nýja þjálfara í karla- og kvennahandboltanum. Líf fór með mér þangað. Þegar við erum að fara út mætum við konu sem Líf horfir aðeins á og þegar við erum að fara inn í bíl segir hún: "Ég vissi ekki að þessi kona væri í FH." Ég spurði hvort hún þekkti þessa konu og hún sagði: "Já, hún er sundkennarinn minn. Vissirðu það ekki?!!" og var greinilega voða hissa á því.

Ég hafði auðvitað engan möguleika á að þekkja þennan sundkennara, en þetta varð kannski til þess að maður gerði sér grein fyrir því að það er ýmislegt sem barnið er að gera á daginn, hvort sem það er í skólanum eða með vinum utan okkar heimilis sem við vitum ekkert um. Sem er í raun ekkert óeðlilegt, en vakti mig samt aðeins til umhugsunar.

Á reyndar ekki von á því að hún sé að gera nokkuð af sér meðan foreldrarnir sjá ekki til.

0 comments

miðvikudagur, maí 04, 2005

Orð fá ekki lýst...

...því hvernig mér leið eftir að flautað var til leiksloka í leiknum gegn Chelsea í gær. Í fyrsta sinn í 20 ár erum við komnir í úrslit meistaradeildarinnar. Mér hefði þótt ýmislegt til vinnandi að fara út á leikinn en því miður fengust ekki miðar til að fara með hópferð á leikinn, þar sem ég hefði verið fararstjóri.

En gleðin var engu að síður ósvikin þegar ljóst var að við værum komnir í úrslitaleikinn. Mér er alveg saman þó að Mourinho hafi sagt að betra liðið hafi tapað (sýnir bara að hann er hættur að kunna að tapa), að ekki sé alveg víst hvort að boltinn hafi farið inn fyrir línuna (hefði verið betra fyrir Chelsea ef þeir hefðu fengið á sig víti og Cech fengið rautt spjald?) og að Chelsea hafi pressað meira á okkur í seinni hálfleik. Það að Liverpool sé komið í þennan úrslitaleik er verðskuldað sama hvað hver segir og nú er bara að fara alla leið og taka þessa dollu. Ég held að við eigum góða möguleika á því saman hvort PSV eða Milan spili leikinn á móti okkur. Við erum búnir að ryðja stærri hindrunum úr vegi á leiðinni í úrslitaleikinn en þessum tveimur liðum.

Nú liggur næst við að spyrja: af hverju spilar Jamie Carragher ekki meira í landsliðinu? Ég held að hann sé búinn að sýna það að hann eigi fyllilega heima þar. Ég er kannski ekki að segja að hann eigi að fara fram fyrir John Terry og Sol Campbell í röðina en hann á klárlega að vera næsti maður á eftir. Annað væri skandall eftir það sem hann hefur sýnt.

Fótbolti

Í gærkvöldi var fótbolti eins og vanalega á þriðjudagskvöldum. Það sérstaka við þennan tíma var að mönnum var óvenju heitt í hamsi. Mitt lið komst í 6-2 og 9-7, en síðan þegar við skoruðum sigurmarkið var það haft af okkur á þann hátt sem Chelsea einum er lagið og við enduðum svo á því að tapa leiknum 10-9. Leikurinn var sérstakur fyrir þær sakir að hann tók nánast allan tímann og það var mikið barist. Gaman að því og allir auðvitað vinir að lokum.

0 comments

sunnudagur, maí 01, 2005

Sorgleg kröfuganga

Myndaði í dag 1. maí kröfugöngu í Hafnarfirði. Þetta er einhver ömurlegasta kröfuganga sem ég hef augum litið. Það hafa ekki fleiri en 40-50 manns tekið þátt í henni fyrir utan lúðrasveitina. En þegar til kom var ég ekki hissa.

Ég ætlaði nefnilega í dag að reyna að fullvissa mig um hvenær gangan færi fram. Einu upplýsingarnar höfðu komið á dreifimiða sem ég hafði fengið heim til mín en sá miði fannst ekki. Engar auglýsingar voru í bæjarblöðunum og ég hafði ekki einu sinni fengið fréttatilkynningu með dagskrá 1. maí. Þá voru heldur engar upplýsingar á vefsíðum verkalýðsfélaganna um dagskrána. Ég athugaði bæði hjá Verkalýðsfélaginu Hlíf, Verslunarmannafélagi Hafnarfjarðar og Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar. Ekki orð um kröfugöngu.

Hvernig í ósköpunum á að vekja áhuga fólks á þessari kröfugöngu þegar félögin sjálf gera ekki betur en þetta?

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?