<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, mars 15, 2003

Viðbrögð
Var í sambandi við Örvar Gröndal, sem "hitt blaðið sem enginn man hvað heitir", eins og Sævar Flensborgarspurningaliðsmaður orðaði svo skemmtilega, segir að sé ekki til. Nú verður ritstýri þess blaðs aldeilis hissa!

Viðtalið við Árna Mathiesen fékk þau viðbrögð sem ég hafði vonast eftir. Guðmundur Árni vildi verða næstur, enda stóð það alltaf til. Tók viðtal við hann í dag sem birtist á fimmtudaginn. Það er óhætt að segja að Árna Matt sé svarað þar fullum hálsi.

Verkefni
Ég hef verið dálítið mikið í viðtölum síðustu tvo daga og því lítill tími gefist til fréttaöflunar, þó að ég eigi örugglega eftir að fylla blaðið af fréttum á mánudag og þriðjudag. En samt pirrandi þegar tíminn fer einhvern veginn þannig að maður getur ekki gert það sem maður ætlar sér að gera út af einhverju öðru sem einhverjum öðrum finnst vera mikilvægara. Ef þið hafið enga hugmynd um hvað ég er að bulla, ekki örvænta. Ég veit það varla sjálfur.

Hafnarfjörður
Ég hætti aldrei að vera hissa á því hvað er margt merkilegt að gerast í þessum bæ. Maður er hreinlega gáttaður og alltaf á maður við það ánægjulega vandamál að stríða að vera með alltof mikið efni til að fjalla um. Helgin hjá mér fer einmitt mikið í slíkt efni. Dásamlegt...þó að fjölskyldan líði kannski pínulítið fyrir það. En bara pínulítið.

Körfuboltinn og fótboltinn
Sá í kvöld dramatískan endi á leik Hauka og Tindastóls. Cookie skoraði sigurkörfuna, þriggja stiga körfu á lokasekúndunum og allt varð vitlaust. Var mjög gaman að vera eini ljósmyndarinn á svæðinu þegar þetta gerðist!! Mjög ánægðulegt fyrir Haukana, og ekki hvað síst vegna þess að það mætti töluvert af fólki á leikinn. Ég vona að ég eigi einhvern þátt í því.
Það var líka gaman í gærkvöldi þegar ég fylgdist með slag Celtic og Liverpool. Sem var reyndar ekki mikill slagur því leikurinn var mjög prúðmannlega leikinn. Úrslitin voru líka góð og ég var mjög sáttur við leik minna manna fyrir utan hræðilegt fyrsta korter. En þetta ætti að vera fínt veganesti í seinni leikinn. Öfunda mikið þá sem eru að fara á hann...bwahh!!!

0 comments

miðvikudagur, mars 12, 2003

Að loknu blaði
Það er, eins og ég hef komið inná áður, hálfgerður föstudagsfílingur í manni þegar blað klárast. Blaðið á morgun verður því miður bara 16 síður en það einkennilega er að 16 síðna blað hefur reynst mér erfiðara í vinnslu en 24 síðna blað. Ég þurfti t.d. að geyma töluvert af efni sem ég hefði gjarnan viljað hafa inni, svosem vinnudagur Regnbogabarna, árshátíð Björgunarsveita Hafnarfjarðar og bjórkvöld hjá Lions. En það bíður bara næsta blaðs...ef það kemst þangað. Ég náði allavega inn Vakningardögum Flensborgar inn.

Í blaðinu á morgun verður annars langt og ítarlegt viðtal við Árna Mathiesen. Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum við því þar sem hann skýtur nokkuð fast á núverandi bæjarstjórn.

Celtic-upphitun
Það er stórleikur framundan á morgun, gegn Celtic í UEFA-keppninni. Hörkuleikur og ég dauðöfunda þá sem eru að fara út að sjá heimaleikinn eftir viku. Hefði svo gjarnan viljað fara þessa ferð. En það verður gríðarlega spennandi að sjá hvernig þetta gengur. Þessir leikir verða örugglega gríðarlegir baráttuleikir og einhverjar tæklingar eiga örugglega eftir að fljúga. Bíð mjög spenntur!

Tímarit Fréttablaðsins
Las í Fréttablaðinu í morgun að þeir hefðu ætlað sér að gefa út tímarit með hverju föstudagsblaði. Það hlýtur eitthvað að láta undan í þessari útgáfusprengingu, menn geta ekki tekið endalaust við. Þetta gerir einnig öðrum útgáfum erfitt fyrir því þær verða þá að lækka sig í auglýsingaverði. Þetta getur einfaldlega ekki haldið svona áfram og ég held að Fréttablaðinu væri nær að efla laugardagsblaðið sitt frekar en að fara út í þetta. En við sjáum hvað setur.

Hið falska flagg
Sá að Fjarðarpósturinn, sem kemur út á morgun, er að gefa það í skyn að aðsend grein sem birtist í VF í síðustu viku væri ekki aðsend. Hann verður að eiga það við sig að hann skuli halda það.

0 comments

mánudagur, mars 10, 2003

Fríðindi
Það fylgja blaðamannastarfinu endalaus fríðindi og maður fær séns á að prófa ýmislegt. Kollegar mínir á blaðinu voru t.d. grænir af öfund þegar ég fékk að smakka smá sýnishorn af matnum á Shalimar, nýja indverska veitingastaðnum sem nú er búinn að opna í miðbæ Hafnarfjarðar (reyndar ekki nýr, því hann er búinn að vera í Austurstræti í tvö ár).
Stundum brestur manni þó kjark til að nýta sér þessi fríðindi og það var einmitt það sem gerðist í dag. Ég skrapp í Garðabæinn til að taka myndir af gókartbraut sem verið var að taka í notkun á föstudaginn. Og var spurður hvort ég vildi ekki taka einn hring. Ég ákvað að gera það ekki, hef aldrei stigið upp í svona farartæki áður og var hreinlega hræddur um að missa stjórn á öllu saman. Ég hefði sennilega átt að þiggja þetta tækifæri, enda hefði ég þá verið aleinn á brautinni og enginn verið viðstaddur til að hlæja að manni, nema náttúrulega brautareigandinn. En það er of seint að sjá eftir því núna.

Hefðbundið
Annars var dagurinn hefðbundinn. Þó þurfti að setja extra trukk í hlutina núna, þar sem fer að nálgast lokavinnslu blaðsins. Það verður annasamt hjá mér í fyrramálið, tek a.m.k. tvö viðtöl og svo er það Árni Matt eftir hádegið. Þriðjudagarnir eru alltaf stress-dagar hjá mér og maður er alltaf dálítið feginn þegar það eru ekki bæjarstjórnarfundir.

Ég hef samt sett mér það markmið að sitja heilan bæjarstjórnarfund og einhvern tíman skal mér takast það. Út af lúðrasveitarstússi gat ég lítið setið síðasta fund en ég frétti svo seinna að menn hefðu verið að blaðra til hálf þrjú um nóttina. Þetta sýnir enn frekar að ég verð að ná að sitja heilan fund til að sjá um hvað í ósköpunum menn geta talað svona lengi!!

0 comments
Fyrst af öllu...argh!!!!!!
Þú ert Steingrímur J. Sigfússon:

Þú ert sannkallaður
vinstri-víkingur þó að þú tapir þér stundum í mótmælunum. Hjá þér skipta
hugsjónir mestu máli.

Taktu "Hvaða stjórnmálaleiðtogi ert þú?" prófið

Ég bara trúi þessu ekki!! Ég er ekki svona mikið á móti öllu!!!!

Löngu tímabært blogg

Enn ein bloggeyða leit dagsins ljós. Ég er ekki einu sinni búinn að fagna sigrinum í deildarbikarnum á blogginu. Þetta er náttúrulega algjör skandall. En ég geri það þá hér með. "JAAAAAAAAAAAAAAHÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚ!"

Þetta var svo innilega verðaskuldaður sigur og fagnaðarlætin voru ólýsanleg. Mjög fallegt af liðinu að fullkomna árshátíðarhelgi íslenskra púllara svona. Dásamlegt!

Ritdeila við samkeppnisaðilann
Samkeppnisaðilinn minn í Fjarðarpóstinum virðist endanlega vera að missa það. Nú skrifaði hann frétt um okkur í blaðinu sínu þar sem hann sagði að blaðið væri á hröðu undanhaldi. Það var því sérstaklega skemmtilegt að blaðið hafi stækkað um átta síður þennan sama dag, þ.e. upp í 24 síður. Hann virðist ekki geta höndlað það að okkur sé í raun og veru að ganga vel á svæði þar sem hann hefur haft einokun lengi. Og hann virðist heldur ekki átta sig á því að svona tilburðir eru bara verstir fyrir hann sjálfan. En að öðru leyti vísa ég í svarið frá okkur á blaðinu á vefnum okkar, vf.is. Það er hægt að lesa hér.

Annasöm helgi
Það vill stundum vera mikið að gera um helgar í þessu djobbi og þessi helgi var engin undantekning. Á föstudagskvöldið var það bjórkvöld hjá Lions (þar sem stigavörðurinn í Gettu betur fór á kostum sem veislustýra) og Samfésball þar sem stuðið var endalaust. Í gær var ég svo að mynda afhjúpun lágmyndar af Bjarna Snæbjörnssyni, fyrsta heiðursborgara Hafnarfjarðar, og hefði reyndar getað verið á tveimur stöðum í viðbót en varð að spila á afmælistónleikum Lúðrasveitar verkalýðsins í staðinn. Um kvöldið var svo mynduð árshátíð Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Í dag var svo myndataka af bikarúrslitaleik 10. flokks kvenna í körfuknattleiks, þar sem Haukar unnu yfirburðasigur, og svo önnur myndataka af Hafnarfjarðarslagnum í handbolta, þar sem einnig var yfirburðasigur hjá Haukunum. Um kvöldið var svo tekið viðtal við þjálfara Hauka í körfubolta karla, en það lið hefur komið mjög á óvart og endaði í þriðja sæti í deildinni. Svona getur þetta stundum verið. Og svo verður tekið viðtal við Árna Matt á þriðjudaginn fyrir blaðið á fimmtudaginn. Þetta verður semsagt massívt blað á fimmtudaginn.

Góðar viðtökur
Svo að ég haldi nú áfram að tala um vinnuna þá er hún að verða sífellt skemmtilegri, ekki hvað síst vegna frábærra viðbragða sem ég er búinn að fá. Þegar ég var t.d. að taka myndir um helgina í þessum partýjum og sagði hvaðan ég væri var ég alltaf ausinn lofi yfir því hvað blaðið væri gott og meira að segja sagði ein að hún byði spennt eftir því á hverjum fimmtudegi. Það er alltaf hrikalega gott að heyra svona lagað (þó að það sé sagt í ölæði) og hvetur mann virkilega áfram.

Ég vona svo bara að ég láti ekki svona langan tíma líða aftur þangað til ég blogga næst.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?