<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, september 24, 2005

Klukk

Jæja, þá er Jón Heiðar búinn að klukka mig þessu skemmtilega bloggklukki. Þetta þýða víst fimm staðreyndir, gjarnan eitthvað sem fáir vita. Hér koma þær.

1. Ég er kolbrjálaður aðdáandi Billy Joel. Ég komst á bragðið þegar ég var að læra á saxafón og var í einni kennslubókinni ráðlagt að kaupa plötu hans, The Stranger, einkum út af saxafónsólói Phil Woods í laginu Just The Way You Are. Það er sóló sem svínvirkar þrátt fyrir að margar hljómfræðireglur séu þverbrotnar. Þetta varð hins vegar til þess að ég komst á bragðið og þegar ég var í Seattle 1991 keypti ég allar Billy Joel plötur sem ég sá þar. Einstakur lagahöfundur, textahöfundur og píanisti.

2. Ég hef gríðarlega gaman af að ferðast. Hef komið til landa á borð við Ástralíu, Jamaica og Kúbu en langar að ferðast til fleiri framandi landa. Myndi t.d. vilja fara meira um Evrópu og kannski ferðast eitthvað um Suður-Ameríku og Afríku. Hvort að ég komi því einhvern tíma í verk verður tíminn að leiða í ljós...kannski maður notið Sunlife-peningana í þetta þegar þar að kemur.

3. Ég hef lært á mörg hljóðfæri. Lærði fyrst á blokkflautu eins og flestir aðrir sem hefjast tónlistarnám, lærði svo á píanó í átta ár í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og síðustu tvö árin þar lærði ég einnig á saxafón. Bætti svo við fjórum árum á saxafón í Tónlistarskóla FíH. Þá lærði ég að auki á trompet í þrjú ár hjá Páli P. Pálssyni þegar hann stjórnaði lúðrasveit Melaskólans. Þá á ég að baki eitt tíu tíma námskeið á gítar.

4. Pabbi minn dó þegar ég var fjögurra ára gamall. Hef alltaf einhvern fundist ég samt vera í sérstökum tengslum við hann þó að ég hafi í raun aldrei þekkt hann og muni lítið eftir honum (þó eitthvað).

5. Ég hef alltaf frá barnæsku haft tónlistarsmekk fólks sem er 20 árum eldra en ég. Á meðan krakkar á mínum aldrei hlustuðu á Duran Duran og Wham hlustaði ég á Fjórtán fóstbræður og Pálma Gunnarsson. Í dag hef ég mjög gaman af íslenskri tónlist sem var vinsælt fyrir 20-40 árum, t.d. Trúbroti, Lónlí Blú Bojs, Mannakorni og Brunaliðinu. Ég hef meira að segja stundum gaman að Lúdó og Stefáni. Af erlendri tónlist hlusta ég fyrir utan Billy Joel m.a. á Dire Straits, Paul Young, Tears for Fears, Bítlana, Doobie Brothers, Sting og ýmislegt fleira í þeim dúr. Það sem kannski er sérstaklega til marks um skrítinn tónlistarsmekk hjá mér er að ég hækka yfirleitt í útvarpinu þegar lagið Sumarið er tíminn með GCD hljómar en það virðist vera almenn mat manna að þetta lag sé eitt það versta sem Bubbi hafi nokkru sinni komið nálægt.

Þar sem ég var klukkaður frekar seint eru það afskaplega fáir af þeim bloggurum sem ég les helst sem hafa ekki enn verið klukkaðir. Ég veit varla af fimm bloggurum sem ekki hafa lent í þessu ennþá. En ég ætla allavega að klukka fjóra einstaklinga; Rúnu, hafnfirsku pólitíkusana Gunnar Svavarsson og Guðmund Rúnar Árnason og svo Árna Guðmundsson formann starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Bíð ég spenntur eftir staðreyndum um þá, þó að ég sé reyndar ekki viss um að tveir þeir síðastnefndu lesi þessa síðu. Gott ef einhverjir myndu skila þessu til þeirra :)

0 comments

miðvikudagur, september 21, 2005

Verkefni

Já, það fór aldrei svo að maður myndi ekki taka að sér annað aukaverkefni. Það sem það er ekki alveg 100% í höfn (bara næstum því) fer ég ekki nánar út í hvað það er hér, en það verður gert þegar það er óhætt. En fundur sem var haldinn á mánudaginn gekk vel og mjög líklegt að af þessu verði. Þetta mun kosta brjálaða vinnu út október, sem mun kannski þýða lítið af bloggfærslum...það verður bara að koma í ljós.

***

Maður er alltaf minntur á það öðru hverju að maður veit aldrei hvenær kallið úr þessum heimi kemur. Á sunnudagsmorgun varð Anne Clyde bráðkvödd. Ég kynntist Anne ágætlega fyrst eftir að hún byrjaði að kenna á Íslandi en þá var hún í mjög nánu samstarfi við mömmu og var oft í heimsókn hjá okkur. Þó að ég hafi nánast ekkert samband haft við hana síðustu árin þá brá mér nett þegar mamma sagði mér frá þessu, kannski vitandi það að hún er nokkrum árum yngri en mamma og ekkert benti til þess að hún væri að yfirgefa þennan heim. Heyrði reyndar meira að segja að hún hefði rætt það við einhverja samstarfskonu sína tveimur dögum áður en þetta gerðist að henni hefði ekki liðið svona vel í mörg ár. Þetta er dálítið óhugnanlegt en segir manni að þetta getur jafnt gerst fyrir heilsuhraust fólk og þá sem eru eitthvað veikari fyrir.

***

Fór að sjá Edit Piaff á sunnudagskvöld. Fannst sýningin svolítið kaflaskipt og mun skemmtilegri eftir hlé en fyrir. Mér fannst Brynhildur líka pínulítið kaflaskipt í söngnum en það er í raun ekki hægt að ætlast til annars þar sem þetta er engin smáræðissöngkona sem hún er að leika og í raun var hún eins lík henni og frekast var unnt. Í heild myndi ég segja að ég gæti alveg mælt með þessari sýningu.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?