<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 05, 2004

Bæjarstjórnarfundir...undarleg samkoma

Stundum kemst ég á þá skoðun að bæjarfulltrúar í Hafnarfirði hljóti að vera þrasgjarnasta fólk landsins. Í gær sat ég bæjarstjórnarfund eins og ég geri venjulega, en ég er alvarlega að hugsa um að hætta að sitja þá í heild sinni, heldur aðeins að litlum hluta.

Ég vonaðist nefnilega til þess í gær að fundurinn yrði stuttur, enda ekki fyrirsjáanlegt að mikil hitamál yrðu til umræðu. En menn gátu fundir sér eitthvað til að ræða um fram eftir kvöldi þannig að fundurinn, sem byrjaði um kl. 5, stóð til kl. 11 um kvöldið þegar ég hafði vonast eftir því að honum yrði lokið fyrir kl. átta. M.a. var þrasað um útboð í klukkutíma, síðan um Hvaleyrarskólann (sem varð svo að öðru þrasi um útboð) í klukkutíma og að lokum tóku menn góðan eldhúsdag um Norðurbakkann þar sem menn urðu reyndar dálítið æstir. Einhvers staðar inn á milli var síðan góð umræða um af hverju mörkin á leiksvæðinu fyrir framan gamla Lækjarskólann voru tekin niður, sem er í sjálfu sér gott að ræða, en menn hljóta að geta gert það á styttri tíma.

Nú er ég yfirleitt frekar knappur þegar ég er að skrifa og skil því ekki hvernig menn geta talað í löngu máli um hluti sem þurfa ekki að vera flóknir. En það er greinilega töluvert gert af því þarna og menn missa sig gjarnan í eitthvað þras sem ætti að vera hægt að komast hjá. Nú hef ég ekki samanburð um hvernig þetta er t.d. á Alþingi eða öðrum bæjarstjórnum en ég hreinlega trúi því ekki að menn tali svona mikið í öðrum sveitarstjórnum. En kannski er það misskilningur hjá mér.

0 comments

mánudagur, maí 03, 2004

Fjölmiðlafrumvarp

Mig hefur lengið langað til að nota þennan vettvang til að segja mína skoðun á fjölmiðlafrumvarpinu. Annir hafa komið í veg fyrir að ég geri það hingað til en nú er ég að leggja lokahönd á verkefnið stóra fyrir Rauða krossinn þannig að nú hellir maður úr skálum reiði sinnar.

Fyrst mætti reyndar færa rök fyrir því að þessi lög eru kannski ágæt fyrir fjölmiðil eins og þann sem ég starfa hjá, en þessir miðlar sem Baugur á hafa getað boðið merkilega lágt auglýsingaverð, reyndar svo lágt að ég skil ekki hvernig þeir lifa á því. Þetta gerir samkeppnisstöðu míns miðils erfiðari þó að það hafi gengið ágætlega upp á síðkastið að ná inn auglýsingum. En maður verður hins vegar að líta lengra en þar sem maður er að vinna sjálfur.

Þetta frumvarp er að mörgu leyti mjög skrítið, sem og aðferðarfræðin við að leggja þetta fram. Óskiljanlegt er að leggja fram frumvarp samhliða skýrslunni, meira að segja frumvarp sem gengur lengra en skýrslan. En það sem hefur vakið athygli mína er að stuðningsmenn frumvarpsins segja að eignarhaldið hafi um of áhrif á umfjöllun, en horfa ekki á aðra þætti þar sem eignarhaldið hefur líka áhrif.

Hvað efnið varðar hef ég ekki getað séð tiltakanleg áhrif eignarhaldsins, kannski fyrir utan einhver skrítin drottningarviðtöl ivð Baugsmenn, sem er reyndar ekkert víst að hafi komið frá eigendunum. Ég hef heldur ekki séð þessa aðför að forsætisráðherra í þessum miðlum og hroki þeirra sem tala um þessa aðför er alveg ótrúlegur þegar þeir segja að menn séu bara blindir ef menn sjá ekki þessa aðför. Ég held því að eigendur séu ekki að hafa áhrif á efni fjölmiðlanna. Það að benda á umfjöllunina um fjölmiðlafrumvarpið í þessum miðlum og segja að hún staðfesti að það þurfi að setja lög er út í hött. Í fyrsta lagi er það eðlilegt að menn verji hagsmuni síns fyrirtækis og í öðru lagi get ég ekki séð að umfjöllun fjölmiðla Norðurljósa hafi verið mikið öðruvísi en t.d. ríkisfjölmiðlanna.

En eigendur geta nýtt sér fjölmiðla sér til framdráttar á annan hátt. Samsæriskenning var uppi á sínum tíma um að Baugsfeðgar hefðu komið inn í Fréttablaðið á sínum tíma til að lækka auglýsingaverð, enda býður Fréttablaðið merkilegt lágt verð á auglýsingum. Það sama er hægt að segja um Birtu, en þar eru oft boðin fáránlega lág verð. Skýringin á því að það sé hægt held ég að sé m.a. sú að það þarf ekki að borga neitt fyrir dreifinguna á Birtu. Í það minnsta skiptir ekki máli þó að borgað sé fyrir hana því þeir peningar fara bara út einu fyrirtæki í annað í eigu sömu aðila. Blaðburðarbörnin sem bera þetta út fá ekkert af þessum peningum til sín og því er kostnaðurinn við dreifinguna í raun enginn.

Í ljósi þessa er furðulegt að menn séu að henda inn ákvæðum um að sami maðurinn megi ekki eiga dagblað og ljósvakamiðil. Það er miklu auðveldara að misnota aðstöðu sína með því að eiga t.d. tímarit og dreifingarþjónustu. Af hverju var þetta ekki skoðað? Það get ég ómögulega skilið.

Annað dæmi um hugsanlega misnotkun: Ég heyrði því einu sinni fleygt að fyrirtæki nokkurt auglýsti í einum Baugsmiðlinum tilboð á vöru sinni. Þegar starfsmaður fyrirtækisins svo kom í eina Baugsverslunina snemma morguns til að setja vöruna þangað inn var búið að lækka vöru sam var í samkeppni við vöru viðkomandi fyrirtækis til jafns við tilboðið. Líkum mætti leiða að því að einhver frá Baugi hafi séð þessa auglýsingu og látið viðkomandi verslun vita, en ég hef engar sönnur á því að Baugur vinni svona. Þarna er hins vegar kominn annar möguleiki á misnotkun.

Þetta eru hliðar sem hafa ekkert heyrst en hefði ugglaust skotið upp kollinum í umræðunni ef mönnum hefði ekki legið svona svakalega á að keyra þetta frumvarp í gegn. Ég vona blaðamarkaðarins vegna að þetta verði ekki að lögum en nýleg dæmi þess að stjórnarliðar fylgi ekki sannfæringu sinni minnka því miður líkurnar á því.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?