<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 03, 2003

Svefninn laðar
Nú stend ég loksins við stóru orðin og fer snemma að sofa. Er búinn að vera gríðarlega þreyttur í dag og það bíður mín erfiður dagur á morgun þegar ég þarf að klára alla efnisöflun í næsta tölublað VF. Ég ætla samt að gera tilraun til að halda netta dagbók fyrir síðustu daga, en þá í öfugri tímaröð því að annars man ég ekkert hvað ég gerði.
Í dag var semsagt þreytudagur en hann byrjaði á því að ég ræddi við Magnús Gunnarsson Sjálfstæðismann og fyrrverandi bæjarstjóra og Sigurð Einarsson, bróður tengdamömmu og fyrrverandi formann skipulagsnefndar Hafnarfjarðarbæjar (og Sjálfstæðismann líka). Efnið var Reykjanesbrautin sem hefur veirð mikið hitamál og ég ætla að gera almennileg skil í blaðinu (þó ekki því næsta). Síðan var skrifað viðtal við spurningalið Flensborgar í Gettu betur sem ég tók á laugardaginn, ásamt ýmsu öðrum smálegu. Ég fór síðan eftir hádegi í skólann til að taka mynd af liðinu og svo skemmtilega vildi til að ég stóð þá að verki, að því leyti að ég ræsti skólameistarann út til að leita að drengjunum sem reyndust svo hafa skrópað í tíma!!
Ég fór síðan að grafa upp fleiri hitamál, m.a. um meinta rítalíngjöf frá Grunnskólum Hafnarfjarðar til barna í skólanum sem blásið var upp í DV (afraksturinn má lesa á vef VF). Verð að segja það að mér finnst alveg með ólíkindum að einn maður geti sagt svona hluti eins og sagðir voru í þessari "frétt" án þess að það sé nokkuð baktékkað eða að sá einstaklingur sem er ásakaður fái að verja sig.
Í kvöld tók ég svo viðtal við unglingahljómsveitina Fíkn sem mun halda tónleika í hinu húsinu í næstu viku. Hef aldrei heyrt þá spila en vona að þeim gangi vel.
Gærdagurinn fór í þrennt; hvíld, innanhússfótbolta og gullbrúðkaup afa og ömmu hennar Rósu. Tíðindalítið að öðru leyti.
Á laugardag tók ég umrætt viðtal við Flensborgara og tók einnig viðtal fyrir Rauða krossinn um verkefnið Ego.is. Þórir upplýsingafulltrúi Rauða krossins bað mig um að redda sér um grein um málefnið sem á að birtast í Nýju lífi og ég ákvað að gera það af minni einskæru góðmennsku. Svo tók ég einnig myndir á meistaramóti barna í karate. Segið svo að þetta sé ekki fjölbreytt vinna!
Föstudagurinn var nokkuð dæmigerður vinnudagur en um kvöldið fór ég á þorrablót sem var líka eins konar ættarmót. Það er oft gaman að djamma með ættingjunum en það var líka gaman að borða þorramatinn, sem ég er alveg einstaklega hrifinn af (í það minnsta á þessum árstíma).
Verð að viðurkenna að ég man ekki meira af því sem ég er búinn að gera þessa viku.
Verð síðan að koma góðu gengi Liverpool að. Sá að vísu ekki leikinn í gær gegn West Ham en skilst þó að batamerkin haldi áfram. Næst er að taka Crystal Palace með stæl.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?