<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 03, 2006

Tíu lög af handahófi

Sá á einhverri góðri bloggsíðu að nú á að spila í sínum spilara 10 lög af handahófi og segja síðan frá þeim. Ég er nú kominn með tæp 2000 lög inn á media playerinn hjá mér og ætla að prófa þetta.

1. Litla flugan með Björgvin Halldórssyni. Nokkuð skemmtileg útgáfa af þessari perlu í anda þess tíma sem hún kom út, sem var að ég held einhvern tíma í lok áttunda áratugarins eða í byrjun þess níunda. Hún er allaveg tekin af Fyrstu árin 2 hjá mér. Ljúft og þægilegt.

2. Downtown train með Rod Stewart. Ekki beint uppáhaldslagið mitt með Rod Stewart og er í raun ekki nema skítsæmilegt lag. Hann hefur sungið mörg lög sem eru betri lagasmíðar en þetta.

3. Wild boys með Duran Duran. Finnst þetta reyndar með betri lögum Duran Duran. Var reyndar aldrei sérstakur aðdáandi þeirra þegar þeir voru upp á sitt besta, var alltaf meiri Paul Young maður, en fór á tónleikana með þeim í fyrra sem voru mjög flottir. En í þessu lagi er fínn taktur, Simon LeBon sýnir hvað bestu söngtilþrifin þarna af þeim lögum sem hann hefur sungið með hljómsveitinni og lagið sem slíkt er fínt.

4. Texas - eitthvað lag sem virðist byggja á laginu Say what you want. Fékk þetta lag inn frá vinnufélaga mínum af einhverjum disk sem hann sagði að væri góður. Þetta er hins vegar sama stefið spilað út í gegn í fimm mínútur með mismunandi trommutakti. Skil eiginlega ekki alveg hvað þetta er að gera þarna inni.

5. Í grænum mó með Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Já, svona er minn tónlistarsmekkur gamaldags. Vilhjálmur var náttúrulega frábær söngvari og fer hér vel með eina af perlum Sigfúsar Halldórssonar. Flott lag og sjarmerandi útgáfa.

6. Drive með Cars. Lag af einhverjum safndiski sem ég keypti þegar ég var á bilinu 16-20 ára gamall og eyddi öllum aukapening í geisladiska. Þetta er fínt lag, rólegt og notalegt, en samt ekki eitthvað sem ég leita að í spilaranum ef ég leita að einhverju góðu lagi.

7. I really loved Harold með Emilíönu Torrini. Mér finnst hún fara vel með þetta lag sem Melanie gerði ódauðlegt. Var hrifinn af henni sem söngkonu þegar þetta lag kom á disk að mig minnir '96, og ekki er hún að gera síðri hluti í dag. Flott lag.

8. Everybody Hurts með REM. Frábært lag, að mínu mati það besta sem frá REM hefur komið. Það sem er til á heimilinu af þessari hljómsveit er reyndar til fyrir tilstuðlan Rósu en hefr engu að síður alltaf fílað REM ágætlega. Og þá sérstaklega þetta lag.

9. I've loved these days með Billy Joel. Úff, eins gott að það kom eitthvað Billy Joel lag inn í þetta! Þetta lag er hvorki eitt af hans frægustu né bestu lögum, en samt mjög gott lag eins og flest hans lög. Af plötunni Turnstiles, sem er ein af hans bestu plötum.

10. Íslenskir karlmenn með Stuðmönnum. Klassískt. Rifjar upp minningar um Með allt á hreinu. Þarf varla að segja mikið um þetta lag, þetta er órjúfanlegur hluti af íslenskri tónlistarsögu.

Já, ætli þetta verði ekki að teljast nokkur þverskurður af þeirri tónlist sem er inni í tölvunni núna!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?