<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 29, 2005

Úrslitaleikur framundan?

Það er spurning eftir leikinn gegn Chelsea. Það eru ekki mörg lið sem hafa haldið hreinu gegn Chelsea á heimavelli. Við ættum alveg að geta skorað á móti þeim á Anfield.

Það vekur líka ákveðna huggun að Mourinho er strax byrjaður að reyna að létta pressunni af sínu liði með því að segja að 99,9% stuðningsmanna Liverpool haldi núna að Liverpool sé komið áfram. Í mínum huga eru þessi ummæli algjör fjarstæða, því við vitum alveg hvað Chelsea er massíft lið. En það breytir því ekki að ég held að við eigum góða möguleika á að slá þá út. Ég hugsa að við gerum eins og við gerðum á móti Barcelona um árið í UEFA, semsagt 0-0 á útivelli og 1-0 heima...mikið væri það nú ljúft!!

Svitafýlupopp

Hinn eiturhressi vinnufélagi minn, Ingi, er búinn að finna upp þetta orð um tónlist sem ég hlusta á. Ég ætla að útskýra þetta aðeins nánar.

Ég hef aðeins verið að dunda mér við það að setja þau lög sem til eru í geisladiskasafninu heima inn í fartölvuna og ef ég vil fá einhverja tónlist set ég Media player á Random og læt tölvuna svo spila eftir handahófskenndu vali sínu. Þetta hefur líka orðið til þess að ég hef rifjað upp kynni við nokkra diska sem ég hef átt heima en ekki hlustað á í nokkurn tíma.

Einn af þessum diskum er Undir áhrifum með Trúbrot. Yfirleitt eru það fyrsta platan þeirra, Trúbrot, og svo Lifun sem er mest látið með. En mér finnst þetta plata gríðarlega vanmetin og margt mjög athyglisvert á henni.

Eitt af lögunum á þessari plötu heitir Feel me og tekur um 10 og hálfa mínútu í flutningi. Þegar þetta lag kom svo upp í tölvunni þá hækkaði ég í því og leyfði Inga að hlusta á það. Eftir um 5-6 mínútna flutning virtist hann komið með yfirdrifið nóg og kallaði þetta lag svitafýlupopp.

Ef menn komast í vímu af svitafýlu getur vel verið að þetta sé réttnefni. En það sem ég fíla við þetta lag eru kaflarnir sem magnast upp, ná verulegum hæðum og fjara svo út. Tveir svoleiðis kaflar eru í seinni hluta lagsins. Mér finnst þetta bara algjör snilld.

Víðlesinn?

Maður veit aldrei hverjum dettur í hug að lesa þetta blogg. Ég var að mynda leik Hauka og ÍBV í gærkvöldi þegar ég hitti einn góðan mann og við tökum tal saman. Hann spurði hvort ég væri byrjaður í hljómsveit og þegar ég neitaði því og spurði hvaðan hann hefði frétt það sagðist hann hafa lesið það á blogginu. Ég hafði ekki hugmynd um að hann vissi að ég bloggaði, hvað þá að hann læsi það sem ég skrifaði. En það er samt alltaf gaman að vita af nýjum lesendum. Gunnar, velkominn í hóp lesenda!

4 comments

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Komment

Kommentakerfið hefur ekki virkað, nú loksins þegar ég fór að verða eitthvað virkur að ráði í blogginu. Nú er ég semsagt búinn að skipta því út og kominn með eitthvað sem virkar. Fire away!

Tímabundið uppáhaldslag

Það kemur stundum fyrir að maður fær lag vel á heilann og vill helst hlusta á það aftur og aftur, sérstaklega þegar maður er í bílnum. Lagið sem skipar þannig sess í heilanum á mér þessa dagana er lagið She með Elvis Costello sem hann söng fyrir myndina Notting Hill. Mér finnst sérlega magnað að hlusta á innlifinunina sem er í honum í þessu lagi, sérstaklega í ljósi þess að hann lét einhvern tíman hafa eftir sér að hann hefði dauðséð eftir því að syngja þetta lag fyrir myndina.

Ég hef yfirleitt ekki verið hrifinn af því að birta dægulagatexta á bloggum, enda yfirleitt sjálfur þannig að ég nenni ekki að lesa þá svona fyrir framan mig af blaði. En ég verð að birta hluta af textanum sem ég er sérstaklega hrifinn af.

She, who always seems so happy in a crowd
Whose eyes can be so private and so proud
No one's allowed to see them when they cry
She maybe the love that cannot hope to last
May come to me from shadows in the past
That I remember 'till the day I die

She maybe the reason I survive
The why and wherefore I'm alive
The one I care for through the rough and ready years
Me, I'll take the laughter and her tears
And make them all my souvenirs
For where she goes I've got to be
The meaning of my life is She.

0 comments

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Kannski ekki svo mikil mistök

Verð að viðurkenna að mér leið aðeins betur eftir að hafa lesið Moggann í morgun. Þar er haft eftir Ingimari (sem mér hefur ekki tekist að ná í ennþá) að Páll hafi boðið honum að taka þriggja vikna frí og Ingimar hafi litið á það sem uppsögn og væri að hugsa ráð sitt.

Það var því allavega sannleikskorn í fréttinni, þó að hún hafi ekki verið fullkomlega sannleikanum samkvæmt.

Það eru greinilega ansi mörg kurl ekki komin til grafar í þessu máli.

4 comments

mánudagur, apríl 25, 2005

Mistök

Eins og maður var eitthvað drambsamur og leit stórt á sig í síðustu færslu, hefur nú sannast hið fornkveðna á mér sjálfum að dramb er falli næst.

Það hefur gerst nú í fyrsta sinn á mínum blaðamannaferli að ég hef þurft að draga til baka frétt sem ég hafði skrifað. Mjög lærdómsríkt ferli, og í raun eitthvað sem ég segi nú eftir að hafa melt þetta atvik að allir blaðamenn hefðu gott af að ganga í gegnum. En þetta segir mér líka að maður eigi að hlusta betur á sjálfan sig áður en maður fer með eitthvað í loftið.

Á föstudaginn fór ég með þá frétt í loftið á vefnum að Ingimar Haraldssyni aðstoðarsparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefði verið sagt upp störfum. Þetta ákvað ég að fara með í loftið eftir að ég hafði fengið þetta frá tveimur heimildarmönnum sem ég taldi að væru áreiðanlegir. Ég fékk þetta hins vegar hvergi staðfest, einfaldlega vegna þess að ég náði ekki í neinn, og var því skeptískur á að setja þetta inn. Kollegar mínir kvöttu mig hins vegar til að gera það á þeim forsendum að ég hefði heimildarmenn fyrir þessu, og þá hugsaði ég sem svo að þetta væru það traustir heimildarmenn að þetta hlyti að vera rétt.

Ég er ekki að varpa ábyrgðina á aðra meða þessu, ég tók þessa ákvörðun og gerði það einn. En þetta kennir manni að það borgar sig stundum að hugsa málið til enda og bíða eftir staðfestingu réttra aðila (það þarf ekki alltaf, en í þessu tilviki hefði það borgað sig).

Í dag náði ég loks í nýjan stjórnarformann Sparisjóðsins og hann sagði að þetta væri ekki rétt, sagði að ég væri að búa til fréttir (sem er auðvitað ekki rétt, því að þetta var altalað á föstudaginn). Fréttin hefur því verið tekin út af vefnum og væntanleg er afsökunarbeiðni í blaðinu á fimmtudaginn.

Mér leið satt að segja hrikalega í dag fyrst eftir að þetta varð ljóst og þá skiptir það engu máli þó að ég sé viss um að margir reyndari blaðamenn en ég hefðu gert það sama í mínum sporum. Mér er nefnilega alveg djöfullega við það að greina frá einhverju sem er rangt og það er nokkuð sem ég myndi alls ekki vilja gera aftur. En ég er reynslunni ríkari eftir þetta og á endanum á þetta bara eftir að gera mig betri í því starfi sem ég er að vinna.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?