<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júlí 14, 2003

Fjölbreytt helgi

Þessi nýliðna helgi bauð upp á allt; fótbolta, bíó, afslöppun og brjálað djamm.

Þar sem við Rósa vorum ein í kotinu um helgina skruppum við í bíó á föstudaginn til að sjá Charlie's Angels 2. Hún var bara asskoti fín afþreying...manni finnst eitthvað flott við að sjá sætar stelpur sem geta líka slegist flott...þ.e. ef þær geta það í raun og veru. En allavega leit þetta nógu raunverulega út fyrir mér...og ég var ekki að gera miklar kröfur um tæknibrellur.

Laugardagurinn var svo djammdagurinn mikli. Fór að vísu áður á KR-völlinn og sá KR vinna þar Þrótt. Fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik tryggðu sigurinn en eftir að Þróttur minnkaði muninn áttu mínir menn undir högg að sækja. En þetta var allavega sigur...svo er að sjá hvað þeim tekst að gera í Armeníu á miðvikudaginn.

Garðveisla aldarinnar fór svo fram um kvöldið hjá Stellu og Sigga í næsta húsi...og þar var tekið stíft á því. Siggi hafði reyndar fengið mig til að taka eitthvað skemmtiatriði sem ég apaði upp eftir Ómari Ragnarssyni við gríðarlega hrifningu...og lét auðvitað mana mig út í þá vitleysu. Síðan spilaði hljómsveit Sigga, Fígúra, fyrir dansi (það var sko búið að setja upp stórt tjald í garðinum) og þar tók ég eitt lag með þeim á saxafóninn, Mustang Sally. Það eru víst sjö ár síðan ég spilaði þetta lag síðast og miðað við æfingaleysið og áfengismagnið sem ég var búinn að innbyrða gekk þetta bara ágætlega. Síðan drakk maður frá sér rænu og vit (eða því sem næst) og drattaðist svo heim (sem betur fer ekki langt að fara) kl. 3.

Daginn eftir var ég nú bara ótrúlega hress þannig að það var lagt af stað í Borgarfjörðinn í fyrra fallinu (upp úr kl. 1). Líf tók agalega vel á móti okkur og með því fyrsta sem við gerðum var að skella okkur í gufu. Þessi bústaður sem tengdapabbi fékk var nefnilega þannig að það var ekki potur í honum heldur gufubað (eða sauna eins og það víst heitir) sem var eingöngu fyrir þennan bústað. Það var nokkuð ljúft þó að ég hafi kannski ekki alveg haft eins svakalegt úthald og tengdó hefur í svona hita. Með þessum bústað fylgir líka bátur sem hægt er að nota til að fara út á Skorradalsvatn. Þannig að þetta bætir nú heitapottsleysið upp að einhverju leyti.

Ég hafði hugsað mér að keyra heim strax um kvöldið þar sem ég þurfti að vinna í dag. En Svavar vildi endilega skella í mig einhverju áfengi eins og hans er von og vísa þannig að ég þambaði nokkra bjóra eftir kvöldmatinn, gisti í bústaðnum og lagði síðan af stað í bæinn rúmlega hálf sjö í morgun. Var nú ekki gríðarlega hrifinn af því að vakna svona snemma, er ekki þessi morguntýpa. En það hafðist samt.

Nú er þessir vinnudagur að líða, aðeins einn dagur í viðbót og þá er ég kominn í frí. Dásamlegt!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?