<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 31, 2003

Hálka og klessa því samfara

Jæja, hálkan sagði til sín upp á hæðum í Áslandinu og varð til þess að tjón varð á bílnum mínum. Það skal greinilega aldrei vanmetið hvað sumardekk geta verið víðsjárverð í fljúgandi hálku.

Á miðvikudagskvöld var ég semsagt að keyra Rósu í Áslandsskóla og Líf fór með okkur. Þetta er reyndar í göngufæri en þar sem Rósa þurfti að koma m.a. með veitingar var betra að keyra. Þegar ég beygi niður brekkuna í Þrastarásnum fer bíllinn að renna, og rennur sífellt hraðar og hraðar án þess að ég fái við nokkuð ráðið. Þar sem bíll var að koma á móti var ekki um neitt annað að ræða en að beygja út af götunni og vona svo það besta. Mér rétt tókst að forða mér frá því að lenda á bílnum, þó að ekki hafi munað litlu, og bíllinn rann niður stuttan en bratta grasbrekku áður en hann lenti svo á húsvegg. Maður var bara feginn að enginn slasaðist og ekkert skemmdist nema bíllinn (það sá t.d. ekki á húsinu). Það var því lán í óláni. Frambrettið beyglaðist á bílnum og annað framljósið brotnað og miðað við hvað gekk á er það vel sloppið. En þetta var ekki mjög skemmtileg lífsreynsla. Það kaldhæðnislega var að fimm mínútum eftir að þetta gerðist kom saltbíllinn til að salta götuna!

Liverpool

Góður sigur á Blackburn á miðvikudaginn, þó að auðvitað dragi það úr hversu mikil prófraun þetta var að Blackburn hafi verið einum færri frá því seint í fyrri hálfleik. Ég var líka ánægður með Heskey, hann kom sér í fleiri færi í þessum leik en samanlagt yfir allt tímabilið það sem af er. En maður verður að sjá í næstu leikjum hvort að það sé eitthvað sem sé komið til að vera. Það er erfiður útileikur gegn Fulham á sunnudaginn sem er í raun stærra test en þetta. Sá leikur verður hreinlega að vinnast.

Eins árs afmæli

Víkurfréttir í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi sendu frá sér eins árs afmælisblað í gær, sem var stútfullt af skemmtilegu efni að vanda. Reyndar óvenju stútfullt núna þar sem það var 24 síður. Á sama tíma var ónefnt bæjarblað aðeins átta síður. Gaman að því!

0 comments

þriðjudagur, október 28, 2003

Undarleg íslensk náttúra

Í morgun sá ég í hnotskurn hvað íslensk náttúra getur verið undarleg. Þegar ég leit út um gluggann sá ég fólk vera að berjast við að berja klakahrönglum af bílnum hjá sér og þurfti greinilega að hafa nokkuð fyrir því. Ég sá því fram á töluverða baráttu við slíkt hið sama hjá mér áður en ég legði af stað í vinnuna. Þegar ég sagði Rósu af þessu bað hún mig vinsamlegast að fara út og setja bílinn í gang svo að þetta myndi nú bráðna af Toyotunni. Veit ekki betur en að það hafi tekist.

Þegar við Líf leggjum svo af stað á Twingoinum kom í ljós að ég þurfti lítið annað að gera en að skafa þetta af því það sem áður var klakahröngl var nú nánast orðið að slabbi. Það virðist því hafa snögghlýnað á þessum hálftíma sem leið þangað til ég sá nágranna mína í klakabaráttu þar til að ég fór út. Gott hjá íslenskri náttúru!

Helga Braga

Við Rósa fórum á föstudaginn ásamt tvennum öðrum hjónum að sjá 100 prósent hitt með Helgu Brögu. Ég mæli með því fyrir alla sem hafa gaman af skemmtilegum kynlífspælingum. Segi ekki meira!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?