<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Orlof

Það hefur verið nóg að gera í orlofinu sem komið hefur niður á þessu bloggi. Stór ástæða fyrir því er að daginn áður en orlofið byrjaði greindist Sif með eyrnabólgu en hún hafði verið veik síðustu dagana á undan. Hún hefur því verið á sýklalyfjakúr sem hún er að klára núna þessa dagana og hefur snarbatnað við það. Vonandi sér þá fyrir endann á þessum veikindum en þetta haust hefur farið heldur illa í hana hvað heilufarið varðar. Hún fór reyndar til hjartalæknis í dag því læknirinn á Sólvangi hafði heyrt eitthvað aukahljóð í hjartanu en allt reyndist í lagi. Eins gott, því ættarsaga bæði mín og Rósu er ekki glæsileg að þessu leyti. Pabbi var með hjartagalla og einnig bæði Rósa og pabbi hennar. Líf var líka skoðuð og reyndist allt í lagi þar líka.

Önnur stór ástæða er efnisöflun vegna bókarinnar sem ég er að skrifa. Þar hef ég reyndar mikið verið að fara í gegnum Morgunblaðið þar sem ég hef verið að kanna árangur íþróttamannanna árin sem þeir voru kosnir. Það er reyndar mjög gaman að lesa ýmislegt annað í þessum eldri blöðum. Það var til dæmis skemmtilegt að sjá umfjöllunina fyrir leikinn fræga gegn Austur-Þjóðverjum, sem tapaðist 6-0 á Laugardalsvellinum. Þar var talað um að hægt væri á góðum degi að vinna þetta austurþýska lið, og það voru ekki bara leikmennirnir eða menn í kringum liðið sem töluðu um það heldur fjölmiðlarnir líka. Þeir gerðu því sitt til að byggja upp óraunhæfar væntingar og voru síðan manna duglegastir við að leita að sökudólgum þegar landsliðið beið skipbrot. En það er nú önnur saga.

Þriðja ástæða er sú að ég fékk í hendurnar 80 Gb Ipod sem var keyptur fyrir mig í Bandaríkjunum. Ég hef verið að dunda mér við að dæla tónlistarsafni heimilisins inn í græjuna og það er ærinn starfi. En þvílík snilldargræja sem þetta er.

Það hefur því verið nóg að gera við misþarfa hluti. En ég þarf líka að fara að huga að Liverpool-blaði. Get ekki setið auðum höndum of lengi.

***

Í dag er ég búinn að heyra tvö lög með Árna Johnsen í útvarpinu. Ætli það sé plott í gangi að spila sem mest af honum til að hann komist nú örugglega EKKI á þing?

***

Ég komst að því endanlega þegar ég keyrði heim úr fótboltanum í kvöld að ég bý fyrir ofan snjólínu. Marautt var alla leiðina þangað til ég kom að Ásbrautinni, sem er gatan sem liggur upp í Áslandið. Þá var farið að snjóa. Þegar ég kom að botnlanganum sem ég á heima var snjóföl yfir götunni.

Já, það er greinilegt að jólin eru að nálgast.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?