<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 10, 2004

Blogg mánaðarins

Aftur leið mánuður....en nú verður það ekki svona á næstunni. Þessi bloggfærsla er hins vegar sett inn núna í tilefni af því að ég var að klára aukaverkefnið fyrir Bændablaðið og jólablað þess er nú komið í prentun. Þar með er aukaverkefnum ársins lokið og ég fagna því vitaskuld eins og óður væri. Nú getur maður loksins einbeitt sér að því að gera almennileg Víkurfréttablöð...það er ekki eins og það sé eitthvað lítið að gera á þeim vígstöðvum.

Kennarar

Það er til marks um hvað er langt um liðið frá mínu síðasta bloggi að ég var að velta fyrir mér síðast hvort það yrðu sett lög á kennaraverkfallið. Svo var það gert...og samningi nánast þröngvað upp á kennarana.

Mér fannst það hrikalega ógeðfellt í þessari kennaradeilu hvað allir virtust líta svo á að kennarar væru með frekju og yfirgang...eins og fólk fyndist það ekki slæm laun að byrja með 160 þúsund eftir þriggja ára háskólanám. Ég veit ekki hvort fólk vill almennt ekki kynna sér málin eða hvort kennaraforystan hafi ekki komið þeim skilaboðum á framfæri á nógu skýran hátt. Mér finnst það líka jafn ótrúlegt að það er eins og allir verði alltaf kjaftstopp þegar ég segi hvað Rósa er með í laun. Eins og það sé ekki búið að tönnlast nóg á launum kennara í fjölmiðlum! Það er bara eins og fólk trúi þessu ekki fyrr en maður kemur með dæmi um raunverulega manneskju.

Menn djöfluðust líka yfir þessum tveimur dögum sem kennarar mættu ekki til vinnu í kjölfar lagasetningarinnar. Það komu 40 kennarar heim til mín eftir að þessi lagasetning átti sér stað og ég hef aldrei séð jafn marga saman komna sem voru í jafn miklu sjokku og þarna. Enda eru þetta spor sem almenningur getur engan veginn sett sig inn í. Fólk var búið að berja í kennaraverkfalli, með tilheyrandi peningaleysi, í sjö vikur og það eina sem kom fólki í gegnum það var sú trú að barátta þeirra myndi skila sér í mannsæmandi launum. En þá skikkar stjórnin kennara til að hætta verkfalli þrátt fyrir að fullkomin óvissa sé um framhaldið.

Rósa hét því að hún myndi segja upp starfi sínu ef hún næði ekki 200 þúsund á mánuði í janúar. Hún náði 2.000 kalli yfir því marki og samþykkti því samningana. Niðurstaðan var hins vegar eins og búast mátti við. Auðvitað var óánægja, en ef kennarar hefðu ekki samþykkt þetta hefði gerðardómur tekið til starfa, og miðað við forsendurnar hefði hann sennilega dæmt kennara á verri kjör.

Spurning er hvernig framtíðin verður svo. Ég held að það kerfi að launanefnd sveitarfélaga semji miðstýrt fyrir öll sveitarfélög sé úrelt. Sveitarfélögin eiga sjálf að geta samið við sýna kennara. Í mesta lagi á launanefndin að semja um lágmarkskjör, en sveitarfélögin hafi síðan það frelsi að gera betur ef þau vilja. Garðabær fékk á sínum tíma áminningu fyrir að borga einhverjum kennurum hærra en kjarasamningar leyfa, og það getur hver maður sé hversu fáránleg slík stefna er.

En nú er nóg komið að þessu....í næstu færslum fer ég að tala um eitthvað skemmtilegra, eins og t.d. Liverpool ;)

Óheppin móðir

Verð nú samt aðeins að segja frá óheppni móður minnar. Hún varð nefnilega fyrir því að ökklabrotna fyrir um mánuði og var í gifsi í tvær vikur. Hún var nánast farlama á þessum tíma og voru heimsóknir til hennar tíðar með mat og aðrar nauðsynjar. Og þessa dagana liggur hún á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði vegna keiluskurðar, en það er nú reyndar hefðbundið á þessum aldri. Spítalavistinni er þá vonandi lokið fyrir næstu ár hjá henni.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?