<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Samsæri handboltalandsliðsins

Er handboltalandsliðið með samsæri gegn mér? Það voru tveir leikir sem ég sá ekki í sjónvarpinu með liðinu á Ólympíuleiknunum, og landsliðið vann þá báða. Mér finnst þetta grunsamlegt!

Þórey Edda

...er stolt Hafnfirðinga og henni verður að sjálfsögðu gerð góð skil í blaði morgundagsins. Hún leyfði mér allavega að sjá góðan árangur hjá sér í sjónvarpinu! En þetta er frábært afrek hjá henni þó að það hefði ekki verið leiðinlegt að sjá hana fara hærra.

Leit að auglýsingastjóra

Við erum að leita að auglýsingastjóra fyrir blaðið okkar. Einn hefur verið í prófun síðustu daga en efast um að hann sé maður í þetta. Borghildur er að hætta og vill losna nú um mánaðamótin. Mikið af umsóknum er komið inn, nú er bara spurning um að ráða einhvern, og það fljótt. Ætti ekki að vera vandamál ef að drifið er í því.

Skólinn

Keyrði Líf í skólann í morgun í fyrsta heilaskóladaginn. Hún vildi labba sjálf í skólann. Voðalega er litla stelpan mín orðin stór! Við fórum öll þrjú í viðtal til kennarans hennar í dag og mér líst bara ágætlega á hana. Vonandi verður hún fljót að kynnast stelpunum í bekknum...efast reyndar ekki um að hún verði það. Það verður gaman að heyra hvað hún segir um fyrsta skóladaginn í dag!

KR

Æi, á ég nokkuð að vera að tala um það? Það er ekki hægt að leggjast mikið lægra en að tapa fyrir Grindavík á heimavelli, nema þá helst að tapa fyrir KA eða Fram á heimavelli. Meiri hörmungin sem þetta er orðin. Hef á tilfinningunni að tvennt valdi þessu: í fyrsta lagi virðist vanta allt hjarta í liði og í öðru lagi er Sigurvin Ólafsson, sem var kjölfesta liðsins í fyrra, alltaf annaðhvort meiddur eða lélegur. Vonandi kemur liðið sterkara til leiks næsta vetur....þetta er búið að vera bölvuð ládeiða núna.

0 comments

mánudagur, ágúst 23, 2004

Sport- og fjölskylduhelgi

Já, helgin einkenndist af sófasporti, fjölskyldunni og smá vinnu og menningu.

Ég átti ljúft kvöld einn heima á föstudagskvöld þar sem Rósa fór í kennarapartý. Lá aðallega í leti og svissaði á milli stöðva, en tryggði þó að ég næði að horfa á Svínasúpuna. Þeir eru bara algjörir snillingar þó að húmor þeirra sé mjög grófur. Verra þótti mér hins vegar að Líf dóttir mín vildi horfa á svínasúpuna og notaði það sem rök að allir krakkarnir í leikskólanum hefðu horft á þetta! Ég býst reyndar við því að Líf hafi verið að ýkja þegar hún segir "allir" en þetta segir mér þó að einhverjir leyfi foreldrum sínum að horfa á þetta. Við Rósa erum hins vegar samstíga í því að leyfa henni ekki að horfa á þetta, enda er orðbragðið sem er í þættinum ekkert við hæfi barna. Á sama tíma blæs ég hins vegar á þá foreldrar sem eru að kvarta undan orðbragðinu. Þeir geta alveg auðveldlega bannað sínum börnum að horfa, er það ekki?

Við slepptum alveg þátttöku á menningarnótt að þessu sinni en vinnan og sportið tóku mikið af þessum degi. Ég myndaði lokauppskerudag skólagarðanna og Íslandsmót í kænusiglingum á laugardag og fór svo á Players þar sem var haldinn fánadagur Liverpool-klúbbsins. Verður það að viðurkennast að við töpuðum þar samkeppninni við menningarnótt því að heldur var mætingin dræm. Þetta fer í reynslubankann þegar svona viðburðir eru skipulagðir.

Restin af deginum fór svo í mikil rólegheit þar sem við Rósa borðuðum snakk og ís yfir bíómynd...afar ljúft.

Í gær reyndi ég að vinna eitthvað smávegis en síðan var horft á Ísland-Rússland, sem ég ætla aðeins að fjalla betur um hér á eftir. Síðan skelltum við fjölskyldan okkur á Fame. Væntingarnar voru blendnar því ég hafði heyrt hræðilega dóma um þessa sýningu. En hún reyndist vera vel leikin og dönsuð, sviðsmyndin var fín og tónlistin stóð ágætlega fyrir sínu. En það sem dró sýninguna svakalega mikið niður var söngurinn fyrir utan Jónsa. Hann virtist hreinlega vera sá eini sem gat sungið þarna. En hápunktur sýningarinnar var samt þegar Auddi og Hugi tóku truflun á sýningunni með því að hlaupa upp á svið og fara með hljóðnemann að Sveppa. Þetta er örugglega eitthvað sem á eftir að birtast í 70 mínútum á næstunni og ég bendi því fólki á að fylgjast með því.

Skólinn

Í dag var farið með Líf í skólann í fyrsta sinn og það gekk bara vel fyrir sig. Allar aðstæður í Áslandsskóla virðast vera í fínu lagi og kennarinn virkaði ágætlega á mig, en ég fer á morgun í viðtal til hennar með Rósu og Líf. Líf virtist lítast ágætlega á þetta og vonandi á henni heftir að líða vel í skólanum.

Handbolti

Ég var alveg svakalega gáttaður á leik íslenska liðsins í gær. Það er kannski mikið til í því sem skrifað var í Mogganum í morgun að liðið sé ekki nógu gott. En eins og ég hef minnst á hér áður er ég á því að besta liðið hafi ekki veirð valið.

Guðmundur mat það þannig að vegna lítillar breiddar hefðum við ekki mátt við því að missa Loga og Patrek úr hópnum. Ég get ekki séð að Logi hefði hvort sem er átt séns í að komast í hópinn og Patrekur, sem hefði þá komið inn fyrir Kristján Andrésson, hefði fyrst og fremst komið sér vel í varnarleiknum, og sá hluti var lengst af í lagi. Sóknarleikurinn var hins vegar höfuðverkurinn, sem og markvarslan.

Við erum þannig stödd með markverði að Birkir Ívar er næstur inn og hann getur alveg leyst þetta verk fullkomlega og átti að koma inn í staðinn fyrir Roland. Held að ef Birkir verði þjálfaður í stöðuna verði hún ekkert vandamál. Í vinstra horninu vantar okkur mann til að leysa Guðjón Val af, hugsanlega gæti Logi leyst það en hann er samt fyrst og fremst skytta. Þarnar vantar greinilega breidd. Skyttan vinstra megin klikkaði algjörlega þar sem hvorki Garcia né Dagur gátu leyst stöðuna, en þarna hefði Arnór Atlason átt að vera. Þetta er maður sem á að geta leyst þessa stöðu í framtíðinni, og mun örugglega gera það ef Gummi hundskast til að gefa honum tækifæri.

Á miðjunni erum við með mjög góðan kost í Snorra Steini og sæmilegan í bæði Kristjáni og Ragnari Óskars. Ekkert vandamál þar. Skyttan hægra megin er heldur ekkert vandamál - Ólafur er náttúrulega snillingur og Ásgeir Örn mun líklega leysa hann af hólmi. Síðan getur Einar Hólmgeirsson væntanlega verið þriðji maður í þessa stöðu. Hægra hornið er í sæmilegri stöðu, Einar Örn er góður og Gylfi er sæmilegt cover fyrir hann. Á línunni erum við með Sigfús og Róbert, sem báðir eru mjög góðir, Rúnar er síðan sterkur í vörninni og ég gæti alveg séð Vigni gegna stærra hlutverki þar, þó að ég sé kannski ekki alveg hlutlaus þegar rætt er um það.

Svona lítil þjóð hefur hreinlega ekki efni á að skilja góða menn eftir heima og það finnst mér Guðmundur hafa verið að gera. Vonandi gerir hann sér grein fyrir þessu áður en kemur að HM í Túnis. Vonandi tekur þá einhver af skarið, sérstaklega ef Óli Stefáns verður ekki með, en vandamálið virtist vera að Óli þurfti að gera allt í liðinu.

Þakka þeim sem nentu að lesa þetta til enda.


0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?