<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 29, 2005

DV

Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með DV og umræðu um blaðið upp á síðkastið. Stefna blaðsins og einstakar fréttir hafa t.d. verið ræddar einstaka sinnum á spjallvef blaðamannafélagsins og þar hafa DV-menn gjarnan gripið til ýmissa varna, einkum reyndar Jakob Bjarnar Grétarsson en nú upp á síðkastið einnig Bergljót Davíðsdóttir. Svo hafa leiðararnir í DV gjarnan gengið út á að verja hitt og þetta sem blaðið hefur gert.

Í sjálfu sér er kannski ekkert að því að DV-menn verji sig þegar á þá er ráðist. En það virðist hins vegar koma stundum fyrir að þeir fari í vörn þó að umfjöllunarefnið gefi ekkert endilega tilefni til þess. Í dálknum Fyrst og fremst í dag er t.d. verið að ræða um stuðningsyfirlýsingu ritstjóra Sunnlenska fréttablaðsins við fréttamann RÚV á Suðurlandi sem nú sinnir ekki fréttum fyrir RÚV vegna skrifa hans á bloggsíðu sinni um Baugsmenn. Í dálki DV er þeirri skoðun lýst að bloggsíðan sé opinber vettvangur og því hafi RÚV brugðist eðlilega við með þessari ákvörðun sinni. Því er ég alveg sammála. En þá þarf endilega að draga það inn í að Bjarni hafi kvartað yfir því að DV hafi verið að hnýsast í einkamál fólk á Suðurlandi! Hvað kemur það málinu við?

Í laugardagsblaðinu er einnig leiðari frá framangreindri Bergljótu, sem fer aðallega í að tala um hvað allir séu vondir við DV og fer síðan að rifja upp mál þar sem brautryðjendastarf hafi verið unnið. Þar nefnir hún t.d. mál Arons Pálma og umfjöllun um handrukkara, og það er alveg hárrétt hjá henni að DV gerði frábæra hluti í báðum þessum málum. En hún nefnir hins vegar ekki mál þar sem gjörsamlega er farið yfir strikið og búnar til stríðsfyrirsagnir úr einhverju sem er ekki neitt.

Lítið dæmi sem ég man eftir nýlega er umfjöllun um sambands Jóns Ólafssonar og Hildar Völu. Þá er ég ekki að tala um fyrstu fréttina af því sambandi, heldur fréttina sem birtist daginn eftir þá frétt. Þar er verið að tala um hvað sambandið sé umdeilt, en þegar betur er að gáð er greinin einungis vangaveltur, þar sem ályktanir eru dregnar út frá ákveðinni atburðarrás án þess að nokkuð sé reynt til að bakka hana upp. M.a. er tiltekið að skömmu eftir að Hildur Vala vann Idol-keppnina hafi Þorvaldur látið hafa eftir sér að hann hlakki mikið til að vinna plötu með Hildi Völu en nokkrum dögum seinna er ákveðið að Jón Ólafsson sjái um plötu Hildar en Þorvaldur taki plötu Heiðu í staðinn. Svo hafi Þorvaldur hætt sem Idol-dómari án nokkurra skýringa og sú ályktun er dregin að það hafi verið vegna óánægju með þessa ráðstöfun.

En er hins vegar eitthvað gert til að bakka þetta upp? Er reynt að tala við Þorvald og spyrja hann út í þetta? Er reynt að tala við forsvarsmenn Idolsins og spyrja af hverju Jón Ólafsson fékk plötu Hildar Völu en ekki Þorvaldur? Er reynt að tala við annaðhvort Hildi eða Heiðu og fá þeirra hlið á þessu. Miðað við greinina þá virðist það ekki hafa verið reynt, og DV-menn tala alltaf um að þeir reyni í það minnsta að ná í alla aðila málsins. Það kom hvergi fram í þessari grein að slíkt hafi verið reynt, og því verður maður að draga þá ályktun að það hafi ekki verið gert.

Krísan sem DV virðist vera sést á áberandi hátt í því að DV-menn sjá ástæðu til að verja sig og ritstjórnarstefnuna í nánast hverju einasta blaði. Og menn geta ekki verið í mjög góðri stöðu þegar sú er raunin.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?