<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 19, 2002

Lægðinni skal vera lokið!!
Það var frábært að horfa á Liverpool spila í Ölveri í kvöld. Leikurinn gegn Aston Villa var bikarleikur eins og þeir eiga að vera og þó að maður sé ekkert sérstaklega hrifinn af því að liðið tapi niður tveggja marka forskoti þá er það alltaf gríðarlega sætt að vinna leiki á síðustu sekúndunum.
Gaman að sjá Gerrard í sínu besta formi...hann var hreint ótrúlegur á köflum. Baros átti stórleik og hlýtur að hafa unnið sér fast sæti í liðinu, Murphy átti mjög góðan leik, Riise var duglegur, Diao byrjaði vel en fjaraði síðan dálítið út. Hef reyndar áhyggjur af Babbel. Það virðist ætla að taka lengri tíma fyrir hann að jafna sig eftir veikindin en gert var ráð fyrir. Vonandi á maður þó eftir að sjá hann í sínu besta formi fljótlega. En ég hef sagt það áður og segi það enn; það er fátt, ef nokkuð, sem jafnast á við það að ærast af fögnuði yfir sigurmarki hjá Liverpool!!
Dagurinn skiptist annars nokkuð í tvennt hjá mér. Fyrir hádegið fundaði ég með Rauða kross fólki og þeim sem vista vef þeirra. Það lærði ég nýtt hugtak; Upplýsingaarkitektúr!! Við vorum semsagt að ræða við konu, sennilega á aldur við mig, sem hafði lært þetta fag í Þýskalandi og þar lærir maður m.a. hvernig maður á að byggja upp vefsíður. Ég vissi ekki að til væri sérstakt fag fyrir þetta en þessi ágæta kona hafði það góða sýn á vefinn að námið hlýtur að hafa borgað sig...þó að maður skilji auðvitað ekki alveg hvað maður lærir mikið í þessum fræðum á 3-5 árum. Þessi fundur gekk allavega vel og maður bíður spenntur eftir því að sjá útkomuna á nýja vefnum.
Eftir þetta fór ég að láta þynna á mér lubbann og síðan fór tíminn eftir hádegi þónokkuð í heimilisstörf, þar sem ég þurfti m.a. að festa ljós á baðinu, skrúfa almennilega saman rúmið hennar Lífar sem hafði verið við það að detta í sundur í nokkra daga og síðast en ekki síst; taka til í geymslunni. Það síðastnefnda kláraði ég reyndar ekki alveg en þó þannig að það er hægt að labba á gólfinu þar.
Ég skil annars ekki af hverju geymslur hafa lag á því að verða að svona miklum ruslkompum. Ég er ekki gefinn fyrir það að safna óþarfa drasli en samt er eins og þetta fyllist einhvern veginn. Stórfurðulegt!!

0 comments

miðvikudagur, desember 18, 2002

Sjónvarpsáhorfið á stundum hug minn allan. Sá þáttur sem ég missi aldrei af á þriðjudögum er Judging Amy á Skjá einum. Ég hef alltaf verið mikið fyrir svona court room þætti og þó að þessir séu kannski ekki dæmigerðir slíkir þættir heldur sé skygnst meira inni í einkalíf persónanna þá kann ég það vel. Einhvern vegin hefur maður þó á tilfinningunni að dómarar séu ekki almennt eins frjálslyndir og Amy er í þessum þáttum en maður dáist alltaf að því hvernig hún fer að því að úrskurða þannig að eftir á liggur það í augum uppi að þetta var sanngjarnasta og besta leiðin.
Það er hins vegar greinilegt á öllu að jólin nálgast. Nú þarf ég t.d. að grafa upp aukaperu til að setja í seríuna sem er á handriðinu heima hjá mér. Skil ekki af hverju þessar perur geta ekki enst lengur. Liggur við að það borgi sig að henda þessum seríum eftir jólin og kaupa nýja fyrir næstu jól. Maður þarf stundum að hafa fyrir því að hafa jólalegt heima hjá sér!
Tókst ekki að ná í manneskjuna....VF verður víst að fylla plássið með einhverju öðru.

0 comments

þriðjudagur, desember 17, 2002

Úff, ég fer bráðum að hafa allt of mikið að gera! Hafði áhyggjur þegar ég neyddist til að vinna í lausamennsku að erfitt yrði að fá verkefni, en þegar ég byrjaði á einum stað hættir þeim ekki að rigna yfir mig.
Tók viðtal við Örn Arnarson sundkappa í dag sem mun birtast í VF á fimmtudaginn. Annað verkefni bíður mín þar líka sem ég hef ekki getað lokið því ég hef ekki náð í viðkomandi manneskju.
Svo þegar ég er rétt að ljúka við fræðsluritið um Rauða krossinn tekur við að skrifa heimasíðu um íslenska söfnunarkassa og semja texta um sögu Rauða kross Íslands á heimasíðuna þeirra. Þórir Guðmundsson upplýsingafulltrúi spurði mig á e-maili hvort ég þyrfti nokkuð að hvíla mig yfir hátíðirnar. Ég hugsa að það sé bara rétt hjá honum!!
En auðvitað er ég ánægður að hafa nóg að gera´. Mér finnst það frábært og þrífst vel í slíku umhverfi...og ekki er verra að smá stress fylgi með!

0 comments
DV að vitkast?
Verð reyndar að bæta einu við...ég gat ekki annað en tekið eftir því að íþróttakálfur DV hefur hrokkið niður í 20 síður. Það er greinilegt að einhverjir hafa komist að því að það þýðir ekki að stækka íþróttakálfa án þess að hafa menn til þess að vinna aukaefnið í hann. Eða hvað?

0 comments
Jæja, þá er búið að jarða ömmu. Falleg athöfn og verð sérstaklega að hrósa söngnum en það voru um 10-15 góðir karlsöngvarar sem gerðu það listavel. Tilfinningarnar brutust út hjá mér þegar þeir sungu Drottinn er minn hirðir og ég táraðist. Fékk þá smá útrás.
Ég var einn af átta kistuberum og þótti vænt um að geta fylgt ömmu síðasta spölinn með þessu móti. Það er eins og maður sé fyrst núna að meðtaka það að hún sé ekki lengur á meðal okkar en það eru þó alltaf þessar góðu minningar sem fylgja henni og munu alltaf gera það.
Jæja, síðan fylgdi í kjölfarið erfidrykkja á Hótel Loftleiðum og þá kom í ljós að það voru fleiri sem mundu eftir henni en við héldum. Taldist fólki til að um 170 manns hefðu sótt erfidrykkjuna, sem var töluvert meiri fjöldi en búist var við. En kannski hefði það ekki átt að koma á óvart.
Jæja, en allavega hafa síðustu sex dagar verið viðburðaríkir. Var dálítið hissa þegar ég sá VF á fimmtudaginn á því að viðtalið sem lá svo mikið á að taka við sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar birtist ekki í blaðinu. En ætli það muni ekki gerast næst. Hins vegar birtist viðtal við Magnús Gunnarsson sem mér fannst hafa verið gerð ágæt skil. Ég ákvað að sleppa leik Liverpool og Vitesse á fimmtudagskvöldið og reyndist það gæfurík ákvörðun því mér skilst að þetta hafi ekki verið sérstakur leikur.
Föstudagurinn var hinn rólegasti og afskaplega fátt markvert sem gerðist. Fyrir hádegi tók ég þó viðtal við miðaldra konu frá Kosovo sem hafði orðið illa úti í stríðinu á Balkanskaganum. Þetta viðtal á að birtast í fræðsluriti Rauða krossins sem ég hafði áður sagt frá. Við hjónin skelltum okkur eftir hádegi í búðarferð að kaupa jólagjöfina okkar frá mömmu (mjög praktísk leið til að verða sér út um fína hluti) og fundum þennan fína skrifborðsstól en báðir stólarnir sem við áttum höfðu sundrast í frumeindir sínar. Allt annað líf að sitja við tölvuna núna. Síðan þurfti að redda yfirliti til að áthuga hverjir voru síðastir til að borga í Liverpool-klúbbinn í tæka tíð til að fá jólasendinguna (fyrir þá sem vita það ekki þá er ég varaformaður Liverpool-klúbbsins).
Laugardagurinn fór svo í að pakka þessari sendingu inn, en hún samanstóð af fréttabréfinu Rauða hernum, nælu, jólagjöf (sem var geisladiskur þar sem Á móti sól og Hreimur sungu You'll never walk alone) og dagatali. Þetta skotgekk, enda einvala lið að hjálpa okkur við þetta, og við vorum búnir að þessu upp úr fjögur. Þá skutlaði Krissi (gjaldkerinn) mér að Ásvöllum þar sem ég hitti Rósu, en hún var á Evrópuleik Haukanna í handboltanum. Líf hafði verið í afmæli hjá dóttur vinkonu hennar Rósu og endaði síðan á því að gista þar, eða hún sofnaði þar á meðan við vorum þarna og svo fengum við okkur bjór og spiluðum með foreldrunum, þeim Röggu og Bjarna (Ragga er vinkona hennar Rósu). Mjög ljúf kvöldstund.
Á sunnudeginum var það svo hefðbundinn sunnudagsbolti á Nesinu en hverjum tíma er yfirleitt ítarlega lýst í blogginu hans Svenna. Síðan tók við vinna við fræðsluritið þar sem ég skrifaði m.a. framangreint viðtal og fór yfir texta sem ég hafði skrifað áður. Meðan á þessu stóð fylgdist ég með leik Sunderland og Liverpool og þurfti að hlusta á lýsingu á enn einu tapinu. Ég á eftir að koma með frekari hugleiðingar mínar um Liverpool síðar en segi aðeins eitt í þetta sinn: Það er eitthvað að en það er ekki lausn að reka stjórann. Houllier er rétti maðurinn til að hefja Liverpool til vegs og virðingar á ný.
Mánudeginum hefur þegar verið lýst. Og þar sem þetta var mikil upptalning hef ég ekki alveg kraft til að koma með einhverjar hugleiðingar um lífið og tilveruna...en það kemur að því!
Until next time!

0 comments

mánudagur, desember 16, 2002

Þetta verður stutt í dag. Það á að jarða ömmu mína í dag en hún dó fyrir rúmri viku. Má segja að hvíldin hafi verið þörf, því hún var búin að vera léleg upp á síðkastið. Hún var orðin 95 ára gömul og hefur sjálfsagt verið hvíldinni fegin.
Segi frekar frá síðustu helgi seinna.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?