<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 31, 2005

Kominn heim

Jæja, þá er maður kominn heim eftir sæludaga á Florida. Ég gæti alveg hugsað mér að fara aftur á þennan stað á þessum árstíma...það var fínt að koma í 25 stiga hita í mars og fá smá sól á sig. Líka frábært fyrir Líf...fín upphituð útisundlaug við hótelið og tveir góðir dagar í Seaworld og Disneylandi. Virkilega gott frí.

Það sem mig langar hins vegar að tjá mig um er Icelandair, því þar sem við flugum líka með bandarísku flugfélagi þá gerði maður sér grein fyrir því hvað þeir eru að mörgu leyti á eftir kollegum sínum í Bandaríkjunum. Svo var ég reyndar ekki sérstaklega sáttur við þá í hrakförunum sem við lentum í á heimleiðinni, kannski sérstaklega mamma.

En byrjum á leiðinni út, en fyrst var flogið til Boston. Vélin átti að fara klukkan fimm en klukkan hálf sex var ekki ennþá farið að kalla út í vélina og engar skýringar gefnar. Það var svo loksins gert rétt fyrir sex og við eftirgrenslan hjá flugvallarstarfsmanni kom í ljós að ástæðan var einfaldlega sú að vélin kom seint inn á flugvöllinn. Af hverju var þá ekki hægt að setja eina tilkynningu í hátalarakerfið til farþega um það? Til að kóróna allt saman þá þurfti vélin að snúa aftur á flugstöðina eftir að komið var út á flugbrautina þar sem bilun varð í hljóðkerfi. Kvenmannsrödd sagði nefnilega í sífellu "Direct access at number four" og síðan kom tilheyrandi hljóð sem myndi helst á gömlu stillimyndina í sjónvarpinu. Það var lagað og vélin fór svo í loftið tveimur tímum á eftir áætlun.

Við gistum eina nótt í Boston og flugum svo til Orlando daginn eftir. Þeirri brottför seinkaði um klukkutíma en þar var tilkynnt um það ÁÐUR en vélin átti upphaflega að fara. Sú ferð var reyndar hin skemmtilegasta. Flogið var með FlySong, sem mér skilst að hafi verið stofnað eftir að Delta fór á hausinn, og þar var lagt mikið upp úr því að hafa hressa stemningu. Það var getraun um hvað allar flugfreyjurnar hétu og upplýsingarnar um öryggismálin voru með írsku ívafi (var líka boðið upp á salsa-útgáfu, óperu og klassík). Þá var líka boðið upp á mikla afþreyingu, m.a. nokkrar gervihnattasjónvarpsstöðvar. Þessi flugferð var því hin þægilegasta.

Hrakfarirnar urðu öllu meiri á heimleiðinni. Þar áttum við flug frá Orlando til Boston og ef sú vél hefði komið á réttum tíma hefðum við haft tvo og hálfan tíma í vélinni. Brottförinni var hins vegar fyrst seinkað um klukkutíma, síðan hálftíma og þegar hálftíma seinkum hafði orðið í viðbót vorum við farin að hafa áhyggjur og settum starfsmann flugfélagsins í málið. Sú dama var hreint út sagt yndisleg. Hún vissi af því að sex manns áttu að fara með vélinni frá Boston til Íslands og eftir mikla leit fann hún út að það voru þrjú laus sæti í vélinni beint frá Orlando til Íslands. Þar var ákveðið að ég, Rósa og Líf tækjum þau sæti. Við skildum mömmu eftir í limbói um hvort hún fengi sæti en ekki voru fleiri sæti laus. Við gripum þetta fegins hendi en ég verð þó að viðurkenna ofurlítinn pirring þegar brottförinni frá Orlando seinkaði um hálftíma. Ástæðan: Jú, fjórir farþegar létu ekki sjá sig og því þurfti að fjarlægja töskurnar. Síðan dúkkuðu þessir farþegar upp og þá þurfti að henda töskunum þeirra inn aftur. Mér hefði fundist viðeigandi að þetta fólk hefði verið kynnt sérstaklega til að við sæjum hvernig svona fífl líta út.

En jæja, við komumst allavega heim og mamma fór ásamt hjónum sem áttu bókað far heim með Boston-vélinni. Mamma var tíu mínútum frá því að ná vélinni. Og þá er mér spurn - hvers vegna í ósköpunum gat vélin ekki beðið í þessar tíu mínútur? Flugvélum hefur nú seinkað um annað eins og meira en það af minna tilefni. Fyrst starfsmaður flugvallarins í Orlando vissi af því að við áttum bókað far með þessari vél, og var meira að segja búin að hafa samband við Icelandair út af málinu, þá hlaut einhver á Icelandair að vita af þessum farþegum. Þar að auki var mikill meðvindur sem sést best á því að Orlando-vélin lenti á undan áætlun þrátt fyrir seinkun á brottförinni. Af hverju gátu Flugleiðir þá ekki beðið með vélina, þeir hefðu haldið áætlun hvort eð er? Kannski ber þetta vott um eitthvað skilningsleysi á rekstri flugfélaga en mér finnst þetta samt afar skrítið.

Af mömmu var það að frétta að hún þurfti að gista eina nótt í Boston og komst svo heim morguninn eftir. Og fékk að vera í Business-klassa, sem var kannski smá sárabót!

Maður segir annars kannski meira frá ferðinni síðar eftir því sem við á.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?