<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 10, 2006

Ræktin

Jæja, nú hafa þau undur og stórmerki gerst að ég er byrjaður í ræktinni. Spurningin er hvort að þetta hafi eitthvað með forlögin að gera.

Ég hef reyndar lengi verið að pæla í að gera eitthvað til að auka þrekið hjá mér. Hef reyndar verið að hlaupa öðru hverju en einhvern veginn ekki komið mér í það nógu oft þó að ég hafi fengið mikið út úr því.

Þegar RÚV auglýsti starf hjá sér í haust sótti ég um og hét sjálfum mér því að ef ég fengið það myndi ég fara í eitthvað átak. Ég fékk ekki starfið en var þó öðru hverju í sambandi við þá hjá RÚV.

Síðan gerist það á árshátíð Hafnarfjarðarbæjar um síðustu helgi að ég vinn mánaðarkort í Technosport í happdrætti. Ég ákvað að líta á það sem vísbendingu um að tími væri til kominn að gera eitthvað. Ég fór því í Technosport á þriðjudagsmorgun, skráði mig og pantaði leiðsagnartíma á fimmtudaginn. Tveimur tímum seinna fékk ég svo fréttirnar frá RÚV um að ég hefði fengið vinnu þar.

Voru örlögin að segja mér að ég fengi ekki vinnu hjá RÚV fyrr en ég færi að hreyfa mig? Kannski langsótt...eða hvað? :)

Allavega fór ég svo í fyrsta tímann í gær og leist bara vel á. Hef aldrei lyft af neinu viti áður...verður gaman að sjá hvernig þetta gengur.

2 comments

þriðjudagur, mars 07, 2006

Vinnuskipti

Jæja, þá eru vinnuskiptin orðin endanleg og opinber. Byrja á fullu hjá fréttastofu Útvarpsins um mánaðamótin, en tek nokkrar vaktir áður, þá fyrstu 23. mars. Er afar ánægður með að þetta sé í höfn, og það fyrr en ég hafði gert ráð fyrir. Vinnan er semsagt út sumarið og svo kemur í ljós þá hvort ég verð eitthvað lengur.

Verður gaman að komast í útvarpið aftur, fannst gaman að vera þar á sínum tíma.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?