<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Kvöldvaktir

Þessa vikuna er ég á kvöldvakt. Nýt mín prýðilega á þeim vöktum, enda með eindæmum kvöldhress maður. Þetta er algjör andstaða við morgunvaktina þar sem ég þarf að mæta klukkan sex. Þar er ég yfirleitt gjörsamlega að mygla og það sést líka á störfum mínum. Steypan sem ég hef stundum skrifað á morgunvöktunum er slík að henni hefði varla verið hleypt inn á síður DV. Það undarlega er hins vegar að mér finnst ekkert mál að vakna á fyrri vaktina um helgar, en hún byrjar klukkan sjö. Ætli líffræðileg klukkan mín sé þannig að ég þoli engan vegin að vakna fyrir klukkan sex?

***

Ég er búinn að skoða nokkrar bloggsíður upp á síðkastið þar sem það er haft á orði að menn hafi skrifað minna en venjulega, og að ástæðan fyrir því hljóti að vera hvað þeir eru hamingjusamir og líði vel þessa dagana. Þeir hafi semsagt komist að því að þeir skrifi yfirleitt meira á bloggsíðu sína þegar þeir eru óhamingjusamir og fúlir út af einhverju.

Ef þetta er rétt, voðalega hlýt ég þá að vera hamingjusamur!! En án þess að ég vilji neitt draga úr hamingju minni held samt að blogghlé miðist frekar við vinnutarnir hjá mér en hamingju, að því kannski frátöldu að þegar þessi síða hóf göngu sína gekk ekki alltof vel hjá mér, einkum að því leyti að ég var án fastrar vinnu. Að öðru leyti get ég ekki sagt að þessi sé raunin. Veit ekki með aðra.

***

Er nú að bíða eftir Rockstar þættinum til að sjá Magna. Ég er auðvitað svo mikill Íslendingur að þjóðarrembingurinn kemur upp þegar einhverjum Íslendingi gengur vel í einhverju og að sjálfsögðu verð ég þá að fylgjast með því. Ég hef enga trú á að Magni vinni þetta, en ef aann kemst meira en hálfa leið, og verður meðal sjö efstu, er það frábær árangur. Vona bara að hann nái sem lengst.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?