<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Grasekkill

Ég er kominn í grasekkilshlutverkið núna. Bryndís vinkona Rósu (fyrrverandi semkennari reyndar og þau hjónin, hún og Elli, reyndar ágætis vinafólk okkar) bauð henni í sumarbústaðinn í svona stelpuferð þar sem þær yrðu einar með börnin og Rósa fór þangað í morgun með Líf. Líklega verður hún fram á föstudag. Ég vissi varla hvað ég átti af mér að gera í einverunni og hef reyndar komist að því áður að það myndi aldrei henta mér vel að búa einn...ég væri hreinlega í tómu rugli þá. En þegar þetta eru bara tveir dagar þá er þetta allt í lagi.

Dagurinn byrjaði annars á því að koma blaðinu frá sér, því síðasta fyrir sumarfrí. Nú mun ég vinna í Keflavík þangað til ég fer sjálfur í frí, að öllum líkindum bæði fyrir Suðurnesjaútgáfu Víkurfrétta og tímarit Víkurfrétta, sem á að koma út fljótlega. Ég fæ þó morgundaginn á Hafnarfjarðarskrifstofunni til að ganga aðeins frá þar, því ekki veitir af tiltektinni þar, það er nokkuð ljóst.

Ég var hálf þreyttur þegar blaðaatinu var lokið, enda hef ég lítið sofið síðustu nætur aðallega vegna þess að ég þarf alltaf að vera að brölta eitthvað vel fram yfir miðnætti. Þannig að ég ætla að reyna að sofa út á morgun...finnst ég alveg eiga það inni.

KR

Skrapp á KR-völlinn í kvöld að sjá mína menn vinna 23 ára lið ÍA í bikarnum. Þetta var öruggur sigur en ekki að sama skapi sannfærandi. Skaamenn spiluðu leiðinlegan bolta en skynsamlegan og drógu leikinn á dálítið lágt plan. En það kom í ljós í þessum leik að KR-liðið verður að hafa Veigar og Sigurvin í liðinu. Þeir eru svo mikil kjölfesta á miðjunni og sóknirnar byggja mikið á þeim. Ef þeir komast í gott form verður KR-liðið illviðráðanlegt.
Annars er deildin þannig að það er ómögulegt að spá fyrir um úrslit því að allir geta unnið alla. Og það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þessari deild í sumar. Aldrei að vita nema að eitthvað óvænt lið hampi titlinum.

Hlaup

Já, nú er ég byrjaður að hlaupa reglulega. Byrjaði reyndar fyrir um mánuði og lét hlauparann þekkta, Sigurð P. Sigmundsson, gera æfingaáætlun fyrir mig. Ég er á síðustu viku þeirrar áætlunar núna og hún hefur reyndar farið dálítið í vaskinn hjá mér, aðallega vegna útilegunnar um síðustu helgi en á sunnudaginn átti ég að hlaupa 10 km. Ég ákvað að hlaupa hins vegar aðeins sex þá, hljóð svo aftur sex í dag (með mun minni erfiðismunum en í fyrra skiptið) og ætla svo að gera það aftur á föstudaginn, en á morgun er fótbolti. Svo er spurning hvort maður reyni við 10 km á sunnudaginn.

Ég er hins vegar að stefna á 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og ætla að reyna að hlaupa það á skítsæmilegum tíma. En ég tek þetta aðeins í hægum skrefum...verð allavega agalega ánægður þegar ég næ að hlaupa þessa 10 km á undir klukkutíma, hvort sem ég næ því fyrir eða eftir maraþonið. Mér finnst hins vegar alveg óstjórnlega gaman að hlaupa. Ég var búinn að vera eins og tuska í allan dag en eftir að ég hljóp þessa sex kílómetra var ég allur annar maður og verð örugglega orðinn þrælhress þegar ég verð búinn að sofa í nótt...sem vonandi gengur betur en síðustu nætur!

0 comments

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Breytt útlit

Nú hefur bloggsíðan fengið andslitslyftingu rétt eins og blogger sjálfur. Ástæðan fyrir þessu er reyndar sú að ég uppgötvaði í dag að það voru komin spurningamerki inn á síðuna í staðinn fyrir íslensku stafina og mér fannst því eðlilegast að nota tækifærið og breyta útlitinu, þó að kannski hafi ekki verið nein þörf á því. En vona að lesendum, ef einhverjir eru, líki þetta.

Blaut helgi

Mikið getur maður bölvað veðurfræðingunum. Það sem átti að vera besta helgi ársins reyndist vera ein sú blautasta. Og einmitt þegar við fjölskyldan fórum í okkar fyrstu útilegu. Það var ættarmót hjá konunni hans tengdapabba og okkur var boðið með í það. Tjaldað var á Flúðum og biðu menn spenntir eftir helgina þar sem það átti að vera svo gott veður. Föstudagurinn var fínn en á laugardag fór að rigna, og það duglega. Allt var blautt og lítið við að vera, en það bjargaði þó útilegunni að það stytti upp fyrir kvöldmat þannig að það var hægt að grilla og sitja aðeins úti. Sunnudagurinn var svo rigning líka.

Semsagt, aldrei að treysta veðurfræðingum!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?